mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Háseti hjá Síldarvinnslunni í yfir 40 ár

8. janúar 2014 kl. 08:00

Þórður Þórðarson

Þórður Þórðarson segir siglingarnar til Grimsby einna eftirminnilegastar

Þórður Þórðarson lét af störfum hjá Síldarvinnslunni um nýliðin áramót. Þórður hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1969 og hefur starfað hjá því samfellt síðan að undanskildum tveimur árum um 1970 þegar hann tók þátt í útgerð en var einungis starfandi hjá Síldarvinnslunni yfir vetrartímann.

Allan starfstíma Þórðar hjá fyrirtækinu var hann háseti á skipum þess. Hann réðist á Birting árið 1969 en þegar Börkur (Stóri-Börkur) var keyptur árið 1973 flutti Þórður sig yfir á hann. Á Berki var Þórður samfellt í 37 ár eða til ársins 2009 þegar hann fluttist yfir á Beiti. Veran á Beiti stóð yfir þar til hann var seldur í desembermánuði síðatliðinum en síðustu túrana fór Þórður síðan á Birtingi sem er sama skip og hann var lengst á og bar þá nafnið Börkur. Þótti Þórði einkar vænt um að ljúka sjómannsferlinum á því skipi.

Fyrir utan sjómannsferilinn á skipum Síldarvinnslunnar átti Þórður sæti í stjórn fyrirtækisins í 18 ár sem aðalmaður.
Þegar Þórður er spurður að því hvað honum þyki eftirminnilegast frá þeim tíma sem hann starfaði á skipum Síldarvinnslunnar segir hann eftirfarandi:

„Einn eftirminnilegasti tíminn er þegar Börkur sigldi með ísaðan fisk til Grimsby. Þetta var gert yfir sumartímann um nokkurra ára skeið vegna þess að það voru engin önnur verkefni til staðar fyrir skipið. Það gerðist margt spaugilegt og eftirminnilegt í þessum söluferðum. Eins er það svo sannarlega eftirminnilegt þegar Börkur var sendur til makrílveiða undan ströndum norðvestur Afríku vorið 1975. Það fiskaðist ekki mikið á þeim slóðum en það var ljúft að liggja í sólbaði. Síðan hafa veiðarnar á sumargotssíldinni inni á Breiðafirði síðustu sjö árin einnig verið eftirminnilegar. Þarna er verið að kasta á grunnsævi uppi í landsteinum innan um eyjar og sker og köstin hafa stundum verið ævintýraleg, allt upp í 1000 eða 2000 tonn. Þetta er sérstakur veiðiskapur“.

Sjá nánar á vef Síldarvinnslunnar