laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hátt hlutfall eldislax í þrjátíu norskum ám

6. maí 2015 kl. 15:05

Lax

Í flestum ám er blöndunin innan við 10%.

Hið umfangsmikla laxeldi í Noregi hefur óhjákvæmilega það í för með sér að einhverjir eldislaxar sleppi úr sjókvíum og leiti upp í ár þar í landi. Starfshópur sem settur var á laggirnar í fyrra af hálfu hins opinbera í samstarfi við vísindastofnanir kannaði blöndun eldislax og villts lax í 140 ám í Noregi á síðasta ári.

Niðurstaðan var sú að í 30 ám var hlutfall eldislax 10% eða meira sem flokkast sem hátt hlutfall, en í 85 ám var hlutfallið undir því marki. Í þeim 25 ám sem þá voru eftir var erfitt að meta hlutfallið. Mest bar á eldislaxi í ám í Vestur-Noregi. Árnar í könnuninni voru valdar með það að markmiði að landfræðileg dreifing væri góð, að árnar væru af ólíkri stærð og að meðal þeirra væru helstu laxveiðiár landsins. Byggt var á gögnum úr stangaveiði og úr talningu hrygningarfiska með hjálp kafara. 

Aðferðin við að skilja á milli eldislax og villts lax er sú að rannsaka hreistur fiskanna sem gefur til kynna vaxtarskilyrði þeirra fyrr á ævinni. 

Frá þessu er skýrt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.