föstudagur, 10. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Haustak furðar sig á stefnu stjórnvalda

Guðsteinn Bjarnason
18. október 2019 kl. 14:01

Atvinnuvegaráðuneytið hefur birt rúmlega ársgamlan úrskurð sinn um synjun leyfis til framleiðslu á lýsi úr slógi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur nú birt rúmlega ársgamlan úrskurð sinn, þar sem ráðuneytið staðfesti ákvörðun Matvælastofnunar frá árinu 2014 um synjun á leyfi til Haustaks í Grindavík til að framleiða lýsi til manneldis úr slógi.

Tilkynning ráðuneytisins er birt 16. október en úrskurðurinn var kveðinn upp 25. september 2018. Fiskifréttir greindu frá þessu máli 9. maí síðastliðinn. Þar er einnig greint frá því að Ramma hf. á Siglufirði hafi einnig verið neitað um framleiðslu á hrálýsi um borð í togaranum Sólbergi.

RÚV greinir í dag frá birtingu ráðuneytisins á þessum úrskurði og Haustak birti í framhaldi af því á Facebook-síðu sinni yfirlýsingu þar sem segir: „Óskiljanleg stefna stjórnvalda að hafna meiri verðmætasköpun og nýtingu úr okkar verðmæta fisk við Ísland. Mikil vinna og fjárfesting á bak við verkefnið hjá Haustak og í samstarfi við Matís skilað mjög hreinni fiskolíu með jafnvel betri gildum en Þorsklifraolían okkar. Stjórnvald hafna meiri verðmætasköpun með stefnu sinni og vilja frekar að þessi hluti af fisknum fari í sjóinn eða í urðun með tilheyrandi kostnaði.“

„Matvælastofnun vill meina að það megi ekki nota innyfli úr fiskum til manneldis,“ var haft eftir Tómasi Þór Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Codlands og Haustaks, í Fiskifréttum 9. maí, „en við vorum búnir að sýna fram á það með Matís að við getum alveg fengið hágæðaolíu út úr þessu hráefni. Samt stoppuðu þeir bara verksmiðjuna, sem þýðir við þurfum að fara í meiri fjárfestingar til að aðskilja þorskverksmiðjuna og þessa.“

Bæði fyrirtækin, Rammi hf. á Siglufirði og Haustak í Grindavík, höfðu fjárfest í dýrum búnaði til að vinna lýsi úr slógi. Þetta var gert í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið í íslenskum sjávarútvegi á seinni árum, sem er að fullnýta hvern fisk og ná þannig meiri verðmætum úr aflanum.

Matvælastofnun synjaði báðum þessum fyrirtækjum um leyfi til þess að nýta búnaðinn til manneldis. Vísað var í reglugerð Evrópusambandsins númer 853/2004, þar sem segir að ekki megi nýta innyfli í vörur sem ætlaðar eru til manneldis.

Í úrskurði ráðuneytisins segir að ekki sé „loku fyrir það skotið að í framtíðinni verði ákvæðum III. viðauka breytt þannig að heimilt verði að vinna afurðir til manneldis úr aukaafurðum dýra. Slík heimild fæst hins vegar ekki fyrr en formleg breyting verður gerð á ákvæðum reglugerðar.“

Í frásögn Fiskifrétta var hins vegar rætt við Þóru Ýr Árnadóttur, gæðastjóra Ramma hf, sem sagði öðruvísi tekið á málum í Noregi. Þar hafi nokkrir frystitogarar fengið leyfi til að vinna matvæli, ætluð til manneldis, úr slógi.

„Noregur notar sömu reglugerð og við, en Matvælastofnun hér túlkar reglugerðina á annan hátt en í Noregi,“ sagði Þóra Ýr.