mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Haustrall boðið út

26. maí 2014 kl. 14:11

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson (Mynd: Einar Ásgeirsson).

Þetta er í fyrsta skipti sem leiga vegna haustralls er boðin út

Ríkiskaup hafa fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar óskað eftir tilboðum í leigu á togurum í haustrall, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.

Helsta markmið haustrallsins er að styrkja mat á stofnstærð botnlægra nytjastofna á Íslandsmiðum með sérstakri áherslu á stofnstærð, útbreiðslu og lífshætti djúpkarfa, grálúðu og fleiri djúpfiska. Auk þess er markmið verkefnisins að fá annað mat, óháð aflagögnum, á stofnstærð þorsks, ýsu og annarra þeirra nytjastofna sem Stofnmæling botnfiska að vori (vorrall) nær yfir. Rannsóknasvæðið er umhverfis allt Ísland, frá grunnslóð og niður á um 1500 m dýpi, og alls er togað á um 380 stöðvum. Þetta er í fyrsta skipti sem leiga vegna haustralls er boðin út en rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar hafa sinnt þessum verkefnum. Hins vegar hefur vorrall og netarall verið boðið út til margra ára. Óskað er eftir leigu á tveimur togurum í október.

Allar frekari upplýsingar um útboðið veitir Ríkiskaup, s. 530 1400 og má nálgast útboðsgögn á http://www.rikiskaup.is/utbod/utb/15658.