sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

HB Grandi búinn með síldarkvóta sinn í norsku lögsögunni

18. nóvember 2008 kl. 09:38

Ingunn AK er nú á leiðinni til Trænö í Norður-Noregi með um 390 tonna síldarafla.

Aflinn fékkst í norskri lögsögu nú um helgina og þar með hafa skip HB Granda náð að veiða síldarkvóta félagsins í lögsögunni á þessu ári, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.   Ingunn AK fór frá Væröy í Norður-Noregi sl. föstudag eftir að lokið var við að landa um 850 tonnum af síld úr skipinu. Stefnan var tekin á miðin að nýju og tók það ekki langan tíma að ná þeim tæplega 400 tonnum sem eftir stóðu af heildarkvóta skipa HB Granda í norsku lögsögunni.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, verður Ingunni AK siglt heim eftir að búið verður að landa úr skipinu í Trænö. HB Grandi á reyndar óveiddan kvóta úr norsk-íslenska síldarstofninum en lítil von er talin til þess að hitta á síld í veiðanlegu magni utan norsku lögsögunnar.

Af öðrum síldveiðiskipum félagsins er það að segja að lokið var við að vinna rúmlega 800 tonna afla úr Faxa RE á Vopnafirði í nótt og var aflinn unninn í flök og flapsa. Lundey NS er svo væntanleg til Vopnafjarðar í kvöld með um 800 tonn af síld sem fengust í Kiðeyjarsundi á Breiðafirði í gær.