þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

HB Grandi býr sig undir loðnuveiðar

13. nóvember 2012 kl. 17:13

Faxi RE. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Skip fyrirtækisins búin með síldarkvóta sína.

 

Síldarvertíðinni er formlega lokið á vegum HB Granda þetta árið og næsta verkefni uppsjávarveiðiskipanna eru loðnuveiðar. Síðasti vinnsludagurinn á Vopnafirði var í gær en þá var lokið við að vinna rúmlega 1.000 tonna afla Faxa RE sem komið var með um helgina, að því er fram kemur í frétt á vef HB Granda

Áður hafði Lundey NS komið til hafnar með um 1.100 tonn síld en þennan afla fengu skipin á Breiðafjarðarsvæðinu í kjölfar sex daga stórviðriskafla sem kom í veg fyrir allar veiðar. 

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, voru veidd og unnin rúm 7.000  tonn af íslenskri sumargotssíld að þessu sinni en veiðar hófust ekki fyrr en í byrjun októbermánaðar. Að sögn Vilhjálms veiddist síldin öll í Breiðafirði og var meira af henni að sjá eftir því sem leið á vertíðina. Jafnframt var síldin stærri í síðustu veiðiferðunum en í þeim fyrstu. Vinnsla gekk vel og er töluverð spurn eftir síldarafurðum.

Framundan er loðnuvertíðin og segir Vilhjálmur að farið verði til loðnuveiða um leið og veðurútlit gefi tilefni til. Þess er þó tæplega að vænta fyrr en komið verður fram í næstu viku. Það gefst því góður tími til að undirbúa skipin fyrir vertíðina og taka veiðarfærin um borð.