þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

HB Grandi jók hagnað sinn um 24%

25. febrúar 2016 kl. 10:15

HB Grandi

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2016 verði greiddur um þriggja milljarða króna arður

Hagnaður HB Granda á árinu 2015 var 6,2 milljarðar króna, en var fimm milljarðar króna árið áður. Hagnaður félagsins jókst því um 1,2 milljarða milli ára, eða um 24%. Þetta kemur fram í frétt á vb.is.

Rekstrartekjur félagsins námu 31 milljarði króna, en þær voru 30 milljarðar árið á undan. EBITDA ársins 2015 var 7,5 milljarðar króna.  

Heildareignir félagsins námu 55,3 milljörðum króna í árslok 2015.  Eigið fé nam 34,3 milljörðum og var eiginfjárhlutfall 62%. Heildarskuldir félagsins voru í árslok 20,9 milljarðar króna.

HB Grandi hf. gerði út 9 fiskiskip í árslok. Árið 2015 var afli skipa félagsins 48 þúsund tonn af botnfiski og 128 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2016 verði vegna rekstrarársins 2015 greiddar 1,70 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða um þrír milljarðar íslenskra króna, eða 4,1% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2015.