sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

HB Grandi kvótahæsta útgerðin með 11,91% af heild

22. maí 2008 kl. 14:08

HB Grandi hefur ráðstöfunarrétt yfir 11,91% heildaraflaheimilda fiskveiðiflotans í þorskígildum talið, samkvæmt nýrri úttekt Fiskistofu. Samkvæmt lögum má engin útgerð eiga meira en 12% og er fyrirtækið því rétt undir kvótaþakinu.

Samherji er næstkvótahæsta útgerðin með 7,72% af heildaraflaheimildunum, þar á eftir kemur Brim með 5,38%, Ísfélag Vestmannaeyja með 4,32%, FISK Seafood með 4,25%, Þorbjörn með 4,23% og Vinnslustöðin með 4,08%.

Af einstökum kvótategundum er HB Grandi með mestan karfakvóta eða tæp 32% af heild, stærstan hlut í ufsakvótanum eða tæp 18% og mestar loðnuheimildir eða tæplega 19% af heild. Samherji skákar HB Granda hins vegar í þorskveiðiheimildum en hann er með 7,10% af heildaraflahlutdeild þess gula.

Fiskistofa hefur eftirlit með aflaheimildastöðu stærstu kvótahafanna og eignatengslum þeirra til að framfylgja ákvæðum um hámarksaflahlutdeild einstakra aðila í lögum um stjórn fiskveiða. Allar tegundir eru teknar með nema þær sem alfarið veiðast utan íslenskrar lögsögu, þ.e. þorskur í Barentshafi og rækja á Flæmingjagrunni.