þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

HB Grandi segir upp fólki á Vopnafirði

30. október 2018 kl. 15:15

Frá athafnasvæði HB Granda á Vopnafirði. (Mynd af vef HB Granda)

Samkvæmt því sem AFL Starfsgreinafélags kemst næst eru flestir þeirra sem sagt var upp, af erlendum uppruna og búsettir á Bakkafirði

Ellefu starfsmönnum Granda hf. í frystihúsi félagsins á Vopnafirði var sagt upp störfum í dag.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu AFLs Starfsgreinafélags.

Þar segir jafnframt: „Áður hafði þremur starfsmönnum verið sagt upp og loks eru tveir starfsmenn að hætta af öðrum ástæðum og verður ekki ráðið í stað þeirra.  Fækkun starfa á Vopnafirði eru því 16 störf á stuttum tíma sem myndi jafngilda því að um 5.600 störf hefðu glatast á höfuðborgarsvæðinu.“

Samkvæmt því sem AFL kemst næst eru flestir þeirra sem sagt var upp, af erlendum uppruna og búsettir á Bakkafirði en þar hefur allri fiskvinnslu verið hætt og íbúar hafa sótt vinnu til Vopnafjarðar. Ennfremur herma fréttir að frekari uppbyggingu frystihússins á Vopnafirði sé hætt, segir í frétt AFls

Í samtali við Austurfrétt - sem greindi fyrst fréttamiðla frá málinu - segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, að búið sé að hafa samband við Vinnumálastofnun til að kanna hvort lög um hópuppsagnir eigi við. Þau kveða á um að samráð sé haft við stéttarfélög og Vinnumálastofnun í aðdraganda fjöldauppsagna.

Hann segist jafnframt í viðtali við Austurfrétt hafa þungar áhyggjur af áhrifunum á nærsamfélagið.