miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hefja styrjueldi í gömlu salthúsi

Guðjón Guðmundsson
21. nóvember 2021 kl. 09:00

Stofninn sem félagið keypti af Stolt Sea Farm er ekki stór eða á annað hundrað fiskar. Myndin sýnir styrjurnar þegar þær voru í kerjum Stolt Sea Farm. Mynd/Árni Sæberg

Hið Norðlenzka Styrjufjelag í Ólafsfirði keypti stofninn af Stolt Sea Farm.

Hið nýstofnaða Norðlenzka Styrjufjelag ehf. hefur hafið framkvæmdir í gömlu salthúsi í Ólafsfirði fyrir styrjueldi, seiðaeldi og framleiðslu á kavíar úr styrjuhrognum. Fyrirtækið keypti níu ára gamlan lífmassa styrju af eldisfyrirtækinu Stolt Sea Farm á Reykjanesi sem sérhæfir sig nú eingöngu í eldi á senegalflúru.

Styrjufjelagið áformar að flyja fiskinn norður yfir heiðar á næstu vikum en í stjórn félagsins eru fimm menn. Þar er stjórnarformaður Eyþór Eyjólfsson, forstjóri fyrirtækisins Coori í Japan sem þróað hefur hugbúnað sem byggir á gervigreind, til kennslu á erlendum tungumálum á netinu. Hann er fyrrum ræðismaður Íslands í Tókíó og  starfaði fyrir Stolt Sea Farm. Eyþór kom að undirbúningi að starfsemi fyrirtækisins á Reykjanesi þar sem senegalflúra hefur verið alin frá árinu 2013 og styrja frá árinu 2014.

Ásgeir Logi Ásgeirsson frá Ólafsfirði á sæti í stjórn Hins Norðlenzka Styrjufjelags.

„Eyþór er með lögheimili á Bakka í Ólafsfirði og er gjarnan hérna heima þegar hann er ekki austur í Japan. Í einni heimsókn hans ræddum við hugsanlega atvinnuuppbyggingu hér fyrir norðan. Eyþór varpaði gjarnan fram spurningum eins og hvað við hefðum fram að bjóða. Við vildum meina að hér væri yfrið nóg af köldu og heitu vatni. Í kjölfarið á þessum fundum okkar stofnuðum við Framfarafélag Ólafsfjarðar sem, ásamt Eyþóri, stendur að baki stofnun Hins Norðlenzka Styrjufjelags,“ segir Ásgeir Logi.

Mikill áhugi var meðal heimamanna fyrir stofnun Framfarafélagsins og voru stofnfélagar 28 talsins. Þegar Eyþór starfaði hjá Stolt Sea Farm var fyrirtækið með styrjueldi í Kaliforníu og úr varð að flutt voru inn seiði til landsins og þau hafa verið alin í stöðinni á Reykjanesi frá árinu 2014. Áherslubreytingar urðu hjá Stolt Sea Farm og ákvað fyrirtækið að draga sig út úr eldi á styrju. Eyþóri bauðst að kaupa stofninn sem var kominn upp á Íslandi og er nú fullvaxinn fiskur, níu ára gamall. Úr varð að Hið Norðlenzka Styrjufjelag keypti stofninn og er nú að undirbúa flutning á honum norður.

Hágæða merkjavara

„Við keyptum húsnæði í Pálsbergsgötu 1 þar sem áður var salthús Sigvalda Þorleifssonar, sem við erum nú að standsetja og innrétta fyrir eldið. Nú stendur yfir vinna við vatnsinntök og frárennsli. Umsóknarferli er líka hafið en þar léttir undir með okkur ný reglugerð frá því í september síðastliðnum sem lýtur að sveigjanlegra ferli fyrir fiskeldi sem er undir 20 tonnum í lífmassa.“

Stofninn sem félagið keypti af Stolt Sea Farm er ekki stór. Þetta eru á annað hundrað fiskar. Reiknað er með  að þeir verði fluttir norður um eða eftir áramót og verður fiskurinn þá veginn og metinn. Reikna má þó með að meðaltalsþyngd á hverjum fiski sé nálægt 60 kg.

Ásgeir Logi bendir á að styrja er fiskur í útrýmingarhættu og Sameinuðu þjóðirnar hafi gripið til samstilltra aðgerða til verndar tegundinni. Öll viðskipti hafa verið bönnuð með afurðir úr villtri styrju. Hins vegar má eiga viðskipti með styrjuafurðir sem hafa verið margar kynslóðir í eldi. Hið Norðlenzka Styrjufjelag uppfyllir þau skilyrði og getur því selt verðmætustu afurðina úr eldinu sem er kavíarinn. Verð fyrir eitt kíló af kavíar er um 170 þúsund krónur en kílóverðið er mun hærra þegar kavíarinn er seldur í smærri einingum. Sterkir markaðir eru fyrir styrjukavíar í Bandaríkjunum og Evrópu.

Merkjavara draumurinn

„Draumurinn er sá að búa til hágæða merkjavöru og ná inn á dýrustu markaðina. Það er margt í þessu verkefni sem býður einmitt upp á slíkar leiðir. Þetta er einstök afurð sem aðrir geta ekki boðið upp á. Þótt aðrir vildu fara út í styrjueldi hér innanlands tæki það mörg ár að koma því af stað. Við erum í þeirri draumastöðu að fá stofn með níu ára gömlum fiski og stutt er í það að verkefnið fari að skila tekjum. Einnig eru uppi hugmyndir um það hjá okkur að ganga þannig frá húsinu að ferðamönnum standi til boða að skoða fiskinn í kerjunum. Þannig yrði verkefnið um leið stoð inn í ferðaþjónustuna á svæðinu. Einnig býður verkefnið upp á gefandi tengsl við fræðasamfélagið hér nyrðra eins og Háskólanna á Akureyri og Háskólinn á Hólum í Hjaltadal.“

Eftir því sem hrygnan er stærri því meir gefur hún af hrognum. Almennt gefur átta ára gamall fiskur af sér 6 kíló af hrognum á ári. Algengast hefur verið að fiskinum sé slátrað við hrognatöku sem talið er skýra að hluta til hve nærri hefur verið gengið stofninum.

Hrognataka annað hvert ár

„Við höfum fengið leyfi til þess að nota þýska, einkaleyfisverndaða aðferð frá háskólanum í Brimarhöfn  sem gengur út á það að ekki þarf að slátra fiskinum við hrognatöku. Með þessari aðferð getur hrygnan gefið af sér hrogn annað hvert ár.“

Ekki er hægt að kyngreina styrju fyrr en við fjögurra ára aldur. Þá er hængurinn grisjaður frá og honum slátrað. Ágætt verð fæst fyrir sjálfan fiskinn. Félagið ætlar einnig að hefja seiðaeldi og stefnt er að því að ný kynslóð bætist inn í eldið á sjö ára fresti. Félagið stefnir á að vera komið með talsvert af seiðum í eldi strax á næsta ári.

„Félagið stefnir hér að atvinnuuppbyggingu en full snemmt er að segja hve mörg ársverk verði í kringum eldið og vinnsluna. Hér verða talsvert margir í vinnu á framkvæmdatímanum og svo er ljóst að þörf verður fyrir enn fleiri þegar við förum að undirbúa seiðaeldið. Flest verða svo störfin í kringum hrognatöku, pökkun á afurðum og öðru slíku.“