mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hefur engin áhrif á afstöðu Íslands

29. júní 2012 kl. 12:00

Friðrik J. Arngrímsson

Nýjar reglur um viðskiptahindranir ESB breyta engu, að mati framkvæmdastjóra LÍÚ.

,,Þetta nýjasta útspil ESB á ekki að hafa nein áhrif á afstöðu okkar til samninga um stjórn og skiptingu makrílstofnsins. Við höldum bara fram okkar rétti með sömu rökum og áður,“ sagði Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ þegar hann var inntur álits á  nýju samkomulagi innan ESB um heimild til viðskiptaþvingana gegn þjóðum sem stunda meinta ofveiði úr stofnum sem ESB-ríkin nýta einnig. 

Friðrik bendir á að annars vegar sé ESB að afla sér heimilda til þess að banna löndun á fiski úr stofnum sem ekki hafi verið samið um nýtingu á. Slíka heimild hafa bæði Íslendingar og Norðmenn nú þegar. Hins vegar sé verið að tala um mögulegt bann við innflutningi afurða úr slíkum stofnum og sömuleiðis bann við verslun með skip, veiðibúnað og fleira. Þetta hvort tveggja stangist á við skuldbindingar ESB um fríverslun, bæði gagnvart ESS-samningnum og reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). 

,,Stóra málið er það að við Íslendingar stundum lögmætar veiðar. Það er ekki hægt að skilgreina þær sem ósjálfbærar frekar en veiðar Evrópusambandsins. Í því sambandi má benda á að Noregur og ESB taka sér yfir 90% af þeim afla sem vísindamenn ráðleggja,“ segir Friðrik. 

Því má bæta við að markaðir Íslendinga fyrir makrílafurðir eru að langmestum hluta utan Evrópusambandsins. Hins vegar hefur töluverðum hluta makrílafurðanna verið umskipað í Hollandi á leið sinni bæði til Afríku og austur á bóginn og ef þessum nýju reglum yrði beitt myndu þær hafa áhrif hvað þennan þátt varðar.