þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heill sé þér, þorskur

24. september 2015 kl. 07:00

Dæmi Sjávarklasans um vörur unnar úr þorski.

Þorskurinn hefur fært íslenskri þjóð 1.400 milljarða í útflutningstekjur frá síðustu aldamótum

Íslendingar veiða 20 milljónir þorska á ári, hafa fjórfaldað verðmæti hvers þorsks á 30 árum og nýta hvern þorsk 60% betur en gert er að meðaltali á heimsvísu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu sjávarklasans sem gefin er út í tilefni Dags þorsksins, sem  haldinn er í dag. Lesa má  greininguna á PDF sniði hér.

Íslenski þorskurinn hefur fært íslenskri þjóð 1.400 milljarða í beinar útflutningstekjur frá síðustu aldamótum og er nú seldur til meira en 60 landa í öllum byggðum heimsálfum. 

Efnahagsleg áhrif þorsksins hérlendis eru gríðar¬leg og þau geta vaxið umtalsvert ef rétt er á málum haldið. Útflutningur á hefðbundnum þorskafurðum skilaði 90 milljörðum króna í tekjur fyrir Íslendinga á síðasta ári. Ef við bætum við útflutningi á vélum, hugbúnaði og þekkingu til veiða og vinnslu þorsks og ýmsum öðrum þorskafurðum, t.d. niðursoðinni lifur og svo snyrtivörum, stoðefnum og fleiru sem unnið er úr afurðum þorsksins eru tekjur landsins af þorskinum langtum meiri en 100 milljarðar króna á ári, segir á vef Sjávarklasans. Það er því vel við hæfi af Sjávarklasanum að velja fyrirsögnina „Heill sé þér, þorskur“ á greiningu sína en hún er fengin úr upphafi kvæðisins „Þorsklof“ eftir Hannes Hafstein.