föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heimildir til strandveiða auknar

20. júlí 2021 kl. 10:05

Alls verður 1.171 tonnum af þorski bætt við. Með þessari aukningu verður því heildarmagn í þorski á strandveiðum alls 11.171 tonn og samtals 12.271 tonn af óslægðum botnfiski.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um auknar heimildir til strandveiða. Alls verður 1.171 tonnum af þorski bætt við en um er að ræða óráðstafað magn sem kom til á skiptimarkaði í skiptum fyrir makríl og fleiri tegundir. Með þessari aukningu verður því heildarmagn í þorski á strandveiðum alls 11.171 tonn og samtals 12.271 tonn af óslægðum botnfiski.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Við upphaf fiskveiðiársins 2020/2021 var 11.100 tonnum af óslægðum botnfiski ráðstafað til strandveiða. Framangreind ráðstöfun á magni byggir á ákvæðum 8. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem 5,3% aflamagns í hverri tegund tekið til hliðar. Þær tegundir sem ekki nýtast beint til sérstakra ráðstafana eru settar á skiptimarkað með aflamark og hefur á yfirstandandi fiskveiðiári einkum verið óskað eftir þorski í skiptum fyrir aðrar tegundir.

Í gær, að loknum 42 veiðidegi, var heildarafli á strandveiðum alls um 7.870 tonn, þar af um 7.280 tonn af þorski. Að meðaltali hefur því heildarafli á veiðidag verið tæp 190 tonn, þar af rúm 170 tonn af þorski. Að óbreyttu hefði því þurft að stöðva strandveiðar um miðjan ágúst. Með þessari aukningu til strandveiða er ráðgert að strandveiðisjómönnum verði gert kleift að stunda veiðar út ágúst. Þá mun þessi viðbótarráðstöfun einnig jafna stöðu milli einstakra veiðisvæða þar sem á sumum svæðum er besti veiðitíminn í ágúst.

Málið varðar útgerðir 654 strandveiðibáta en að óbreyttu hefðu strandveiðar líklega stöðvast um miðjan ágúst, eins og Landssamband smábátareigenda hafði bent á.