sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heimsaflinn minnkar á öldinni

Guðsteinn Bjarnason
29. júlí 2018 kl. 07:00

Sjómaður í Sri Lanka býr afla sinn til flutnings. MYND/EPA

Skýrsla FAO um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi hefur að geyma eina umfangsmestu úttekt á málefninu sem birt hefur verið til þessa.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, sendi fyrr í mánuðinum frá sér tvær stórar skýrslur. Önnur en nýjasta uppfærsla skýrslu stofnunarinnar um stöðu fiskveiða og fiskeldis í heiminum, sem kemur út á tveggja ára fresti og jafnan full af fróðleik um efnið.

Hin skýrslan er ekki síður efnismikil, en þar eru í fyrsta sinn teknar saman á vegum FAO mjög ítarlegar upplýsingar um áhrif lotslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi. Að sögn Ragnhildar Friðriksdóttur hjá Matís hefur þessi skýrsla að geyma eina umfangsmestu úttekt á málefninu sem birt hefur verið til þessa.

Ragnhildur birti í síðustu viku grein á vef Matís þar sem hún dregur saman í stuttu máli nokkrar helstu niðurstöðurnar úr skýrslunni. Hún þekkir vel til þessara mála því hún tekur þátt á vegum Matís í Evrópuverkefninu ClimeFish þar sem skoðuð eru áhrif yfirvofandi loftslagsbreytinga á veiðar og eldi í sjó og ferskvatni í Evrópu, ásamt því að setja upp viðbragðs- og aðlögunaráætlanir.

Engin smásmíði
Skýrslan er engin smásmíði, meira en 650 blaðsíður að lengd og hefur að geyma nærri 30 ítarlegar skýrslur um hinar ýmsu hliðar á þeim áhrifum sem hlýnun andrúmsloftsins hefur á bæði fiskveiðar og fiskeldi. Höfundarnir eru meira en 200 talsins.

Fram kemur að styrkur koldíoxíðs í andrúmslofti jarðar hafi aukist um 40 prósent frá upphafi iðnbyltingar. Ennfremur hafi heimshöfin bundið um 25 til 30 prósent af þessu viðbótarkoldíoxíði. Auk þess hafi heimshöfni dregið í sig um 93 prósent af þeirri hitastigshækkun sem orðið hefur.

Þetta hefur þau áhrif á hafið að það bæði hlýnar og súrnar auk þess sem yfirborð þess hækkar.

Áhrif loftslagsbreytingar á fiskveiðar sérstaklega eru teknar fyrir í skýrslunni og skoðaðar út fra tveimur mismunandi sviðsmyndum, þeirri bjartsýnustu og þeirri svartsýnustu.

„Niðurstöðurnar eru þær að undir báðum þessum sviðsmyndum muni geta hafsins til að standa undir fiskveiðum minnka,“ skrifar Ragnhildur.

Þegar miðað er við bjartsýnu sviðsmyndina, RCP2.6, má búast við því að til ársins 2050 geti heimsaflinn minnkað um 2,8 til 5,3 prósent, en ef horft er á svartsýnu sviðsmyndina, RCP8.5, yrði aflasamdrátturinn líklega 7 til 12,1 prósent. Samkvæmt RCP8.5 myndi aflasamdrátturinn síðan halda áfram og verða orðinn 16,2 til 25,2 prósent við lok 21. aldar.

Ólíkt eftir heimshlutum
„Þessar breytingar munu hafa misjöfn áhrif milli heimshluta og í lögsögum ríka, þar sem sum svæði munu sjá aukningu en önnur samdrátt í afla. Talið er að mesti samdrátturinn muni eiga sér stað í suðrænum ríkjum, sér í lagi í Suður-Kyrrahafi,“ skrifar Ragnhildur.

Staðan er önnur þegar fjær dregur miðju jarðar. Á hærri breiddargráðum má búast við því að aflinn aukist um 30 til 70 prósent, en samdrátturinn í ríkjum sem eru nær miðbaugi geti orðið 40 prósent.

„Þess skal þó getið að töluverður breytileiki ríkti á milli niðurstaðna þeirra líkana sem beitt var á svæði á hærri breiddargráðum og því óvissan meiri á þeim svæðum.“

Hvað varðar áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi hefur reynst erfiðara um vik að draga upp heildarmynd með skýrar línur, því frekari rannsókna þarf við.

„Loftslagsbreytingar munu líklega hafa bein og óbein áhrif á fiskeldi, bæði í tíma og rúmi, en FAO skýrslan kallar sérstaklega eftir auknum rannsóknum á þessu sviði,“ segir Ragnhildur.

„Megnið af þeim vexti í framleiðslu sjávarfangs sem talinn er þurfa til að mæta aukinni eftirspurn mun aðallega koma frá eldi í sjó og ferskvatni. Það er því gífurlega mikilvægt að skilja áhrif loftslagsbreytinga á iðnaðinn.“