þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Helmingi meiri afli en svipuð aflaverðmæti

Guðjón Guðmundsson
9. maí 2020 kl. 09:00

Bræðurnir Pétur og Hólmsteinn Björnssynir að ganga frá afla dagsins. Mynd/Hafþór Hreiðarsson.

Útgerðin Hólmsteinn Helgason ehf. á Raufarhöfn fékk um 67 tonn á sína tvo báta á þessari vertíð. Í fyrra fengust 30 tonn samtals á báða bátana.

Þrátt fyrir meira en helmingi meiri afla á þessari grásleppuvertíð en þeirri síðustu eru aflaverðmætin milli vertíða svipuð hjá fjölskyldufyrirtækinu Hólmsteini Helgasyni ehf. sem gerir út tvo báta frá Raufarhöfn. Þeir bræður, Pétur og Hólmsteinn ásamt Birni syni Hólmsteins, lögðu netin á Birni Hólmsteinssyni ÞH 164, sem nefndur er eftir föður þeirra bræðranna, en auk þess gerir fyrirtækið einnig út Kristinn ÞH 163.

„Menn byrjuðu misjafnlega snemma hérna fyrir austan en það hefur verið fínasta veiði. Það er miklum mun meiri afli á þessari vertíð en undangengnum vertíðum. En á móti kemur að verðin eru mun lægri en þau hafa verið. Skýringin á þessari miklu verðlækkun er óvissan um sölu á búknum,“ segir Hólmsteinn Björnsson, sem eins og aðrir grásleppuveiðimenn hafa tekið grásleppunetin í land þetta árið.

Færri bátar og rýmra um þá

Útgerðin hóf veiðar 10. apríl á Birni Hólmsteinssyni ÞH og þann 15. apríl á Kristni ÞH. Eftir að þeir hófu veiðar var tíðin góð og gott að eiga við netin. Þarna leggja bátarnir net inn með Þistilfirði inn undir Krossavík og norður með landinu og norður fyrir Melrakkasléttu. Um átta bátar voru gerðir út á grásleppuna frá Raufarhöfn þetta árið sem er talsverð fækkun frá því sem verið hefur. Hver bátur er með 100-115 net og rúmt um menn á öllu þessu svæði. Netin liggja í 2-4 nætur og mesti aflinn var að fást í stórstreymi eða rétt eftir stórstreymi, þetta 3-5 tonn eftir fyrri yfirferð.

Hólmsteinn kveðst ágætlega skilja vonbrigði grásleppuveiðimanna fyrir vestan en segir að með tilliti til MSC-vottunar á grásleppu hafi ekki komið annað til greina en að stoppa veiðarnar.

„Kannski voru gefnir út óþarfa margir dagar í upphafi veiðanna og ég skil vel urginn í mönnum. Fyrirvarinn var líka lítill og margir á minni bátum í erfiðleikum að draga netin með grásleppu og taka upp netin við alls konar veðuraðstæður. Plássið er lítið í mörgum þessara báta fyrir bæði aflann og mikið af netum en við ráðum vel við þetta á okkar bátum,“ segir Hólmsteinn.

67 tonn eftir vertíðina

Útgerðin fékk um 67 tonn á sína tvo báta á þessari vertíð. Í fyrra fengust 30 tonn samtals á báða bátana. Vertíðin í fyrra var líka óvenju léleg, að sögn Hólmsteins. Gegnumsneitt hafa bátarnir verið að skila að jafnaði 50-70 tonnum.

„En það voru feiknarlega góð verð í fyrra. Ég hugsa að aflaverðmætið sé nánast það sama núna og í fyrra þrátt fyrir meira en helmingi meira afla nú.“

Báðir bátarnir eru gerðir út á eigin aflaheimildir og staðan í þeim efnum er ágæt hjá Hólmsteini Helgasyni ehf. Kristinn ÞH var að leggja í hann út frá höfninni að leggja þorska- og ýsunet og verða bátarnir á netaveiðum sennilega út þennan mánuð. Þá taka við handfæraveiðar og kvótastaðan er góð út þetta fiskveiðiár. Tíðin hefur verið vond í vetur og bátarnir einnig verið talsvert frá vegna reglubundins viðhalds. Lengi vel komu því ekki inn miklar tekjur.

Fiskurinn hefur verið unninn að hluta til í fiskvinnslu fyrirtækisins í Raufarhöfn og einnig verið seldur slægður til ákveðinna verkenda ferskfisks fyrir sunnan. Farsóttin hafi þó breytt ýmsu þar sem markaðir fyrir ferskfisk hafi lokast. Því sé dálítið verið að leysa málin frá degi til dags eins og staðan er nú. Fiskverð hafi að þessum sökum lækkað talsvert mikið.

„Það er ekkert annað í boði en að halda áfram. Það eru ekki öll ár eins, það er gangurinn í þessu. En maður treystir á það að þetta sé tímabundið ástand,“ segir Hólmsteinn.