föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Helmingur neyslufisks í heiminum kemur úr eldi

9. september 2009 kl. 12:01

Fiskeldi í heiminum hefur aukist hröðum skrefum á undanförnum árum og nú á þessu ári hafa orðið þau tímamót að helmingur af þeim fiski sem fer til manneldis er eldisfiskur.

Milli áranna 1995 og 2007 þrefaldaðist framleiðsla eldisfisks. Aukin eftirspurn eftir fiski er meðal annars rakin til þess að fólk vill í auknum mæli borða mat sem hefur að geyma hinar hollu omega-3 fitusýrur. 

Aukið fiskeldi kallar á aukið fiskafóður sem er m.a. búið til úr fiskimjöli og lýsi. Er nú svo komið að 68% af öllu fiskimjöli og 88% af öllu lýsi í heiminum er ráðstafað í fiskeldi.

Á árinu 2006 nam framleiðsla á eldisfiski í heiminum tæplega 52 milljónum tonna. Á sama ári voru 20 milljónir tonna af fiski brædd til mjöl- og lýsisframleiðslu. Bent hefur verið á að til þess að gera laxeldi umhverfisvænna þurfi að draga úr notkun fiskimjöls í laxafóður, en mjölið er mikilvægur þáttur í fóðrinu. Eldistegundir eins og kínverskan karpa og tilapiu má hins vegar ala á jurtafóðri í stað villts fisks. Þar af leiðandi hefur eldi á slíkum fiski verið talið umhverfisvænna en hinna.

Þrátt fyrir þessa staðreynd notuðu eldisstöðvar sem ala karpa og tilapiu yfir 12 milljónir tonna af fiskimjöli á árinu 2007, mun meira en notað er í laxeldi og rækjueldi samtals.

Frá þessu er skýrt á vefnum IntraFish og vitnað í nýútkomnar skýrslur um málið.