mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Helmingur sögunnar er í sjónum

Guðsteinn Bjarnason
26. janúar 2019 kl. 07:00

Ragnar Edvardsson við mælingar með tvígeislamæli. MYND/AÐSEND

Rannsóknir Ragnars Edvardssonar á hvalveiðistöðvum og fornum verstöðvum vöktu forvitni hans um hvað væri að finna í sjónum fyrir framan þær.

Fornleifafræðingar íslenskir hafa flestir hverjir einbeitt sér að fornleifum á landi, en Ragnar Edvardsson hefur farið aðra leið. Hann skoðar fornleifar neðansjávar allt í kringum landið og segir þar mikið verk óunnið.

„Við erum náttúrlega bara með helminginn af sögunni i landi, hinn helmingurinn er úti i sjó,“ segir Ragnar, sem starfar hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum og hefur þar meðal annars einbeitt sér að rannsóknum á fornum verstöðvum og hvalveiðistöðvum.

„Ég byrjaði á verstöðvunum og sá þá að ég þyrfti að fara meira út í sjóinn. Þegar ég var síðan að vinna í hvalveiðistöðvunum langaði mig til að sjá hvað er fyrir framan þær úti í sjónum, og það var í raun aðalástæðan fyrir því að ég fer síðan út í sjó. Strax og ég gerði það þá komu í ljós alls konar minjar, gripir, tól og tæki sem hvalveiðimennirnir notuðu. Auk þess sem þar eru heilu hvalbeinakirkjugarðarnir. Maður sá þannig hinn hlutann af allri starfseminni, sem er kannski alveg horfin uppi á landi. Varðveislan í sjó er oft betri ef aðstæður eru góðar.“

Allt upp í þúsund flök
Ragnar hefur kannað heimildir um skip og báta sem sokkið hafa hér við land allt frá því um 1100. Út frá þeim má nokkurn veginn staðsetja um 300 skip og til viðbótar má gera ráð fyrir því að álíka mörg skip hafi farist við landið þótt ekki sé hægt að staðsetja þau nákvæmlega.

„Við getum búist við að í kringum landið séu að minnsta kosti um 600 og allt upp í þúsund skipsflök frá ýmsum tímum, gróft áætlað,“ segir hann.

„Mest er um þetta í kringum verslunarstaði, en skip hafa verið að slitna upp eða bara farast í legunum því hafnir voru ekki manngerðar, bara náttúrulegar.“

Undanfarið hefur hann verið að kanna og kortleggja svæðið í kringum Reykjavík í samstarfi við Arnar Þór Egilsson kafara, einkum í kringum Viðey og Eiðsvík.

„Við höldum að við séum með skipsflak þar, jafnvel tvö í nágrenni við Viðey. Þetta eru tréskip, en við erum ekki búnir að staðfesta það ennþá. Sennilega er þriðja flakið þarna líka. Það er dálítið mikið af minjum í kringum Reykjavík. Flestallt er það frá seinni hluta 19. aldar og fram eftir 20. öld.“

Hann segist telja að annað flakið við Viðey hljóti að vera Henrietta, skip sem sökk í óveðri við leguna árið 1908.

„Það eru tvö flök þar sem sukku í óveðri, bæði þilskip.“

Fyrst er kortlagt, síðan kafað
Könnun hafsbotnsins fer þannig fram að fyrst eru þau kortlögð með tvígeisla- og fjölgeislamælingum. Þegar eitthvað sést sem virðist vera manngerður hlutur þá er það merkt og síðan er kannað betur með köfun eða myndavél. Alls hafa fundist um fimmtíu staðir í kringum Viðey og Eiðsvík sem athuga þarf betur.

Síðasta vor fundu Ragnar og Arnar einnig flakið af strandflutningaskipinu E/S Reykjavík við Skógarnes á sunnanverðu Snæfellsnesi, skammt frá þeim stað þar sem annað flak, af danska póstskipinu Phønix, fannst fyrir nokkrum árum.

„Við stefnum á að rannsaka það núna í vor, reyna að mæla það upp og sjá hvernig ástandið á því er. Það lítur út fyrir að vera brotið upp. Phønix liggur á sínum stað í skjóli við sker og er tiltölulega heilt, en hitt skipið sem við fundum síðastliðið vor er miklu verr farið, þótt bara séu þrír kílómetrar á milli þeirra.“

Eiginkona Ragnars er Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, en hún er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Hún er líffræðingur og hefur, í samstarfi við Ragnar, gert merkar rannsóknir á þorskbeinum sem fundist hafa í verstöðvum á Vestfjörðum.

Ragnar segir þær rannsóknir langt komnar en nú langar hann að gera frekari rannsóknir á verstöðvum víða um land.

Verbúðasamfélagið
„Hugmyndin er að fara meira út í að rannsaka verbúðasamfélagið sjálft, skoða byggingarnar og hvernig búsetu var háttað í þessum verbúðum.“

Hlutur af þeirri vinnu yrði samanburður á milli landshluta, bera til dæmis verstöðvar á Vesturlandi saman við verstöðvar á Norðurlandi og á Austfjörðum.

„Útgerð var lengi framan af minni á Austlandi en á Vesturlandi en á 19. og 20. stórelfdist útgerð á Austurlandi. En varðandi verstöðvarnar þá hafa menn ekki áttað sig á því að verstöðvarnar, til dæmis á Snæfellsnesi og hér í Bolungarvík, voru stór samfélög á íslenskan mælikvarða.“

Að sögn Ragnars má segja að frá 13. öld og fram til loka þeirrar 16. hafi átt sér stað þéttbýlismyndun í verstöðvum, til dæmis á Rifi og í Gufuskálum á Snæfellsnesi.

Þéttbýlismyndun stöðvaðist
„Þar voru 150 til 200 búðir og má jafnvel segja að þar hafi komið fram á sjónarsviðið fyrsti vísir þorpa á Íslandi, eitthvað sem lítið hefur verið talað um áður. Á Rifi er á miðöldum á Rifi kaupstaður með öllu tilheyrandi og verstöð þar sem gert var út allt árið um kring.“

Hann segir að bent hafi verið á svipaða þróun annarsstaðar, til dæmis á Bretlandseyjum þar sem litlar verstöðvar þróast í stóra fiskibæi, eins og Grimsby og Hull.

„Þetta er þróun sem við sjáum hér líka en hún virðist stöðvast þegar komið er fram á seinni hluta 16. aldar Þá virðist allt benda til hnignunar íslenskrar útgerðar og í kjölfarið hrynur efnahagur landsins. Eftir það koma lög og reglur sem hefta búsetuþróun í verstöðva og hægt er að segja að þannig hafi þróun íslenskra sjávarþorpa stöðvast tímabundið.“