laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hertaka nýjar fisktegundir Norðursjóinn?

29. apríl 2009 kl. 12:00

Miklar líkur eru taldar vera á því að á næstu 20 árum verði allt aðrar fisktegundir ríkjandi í Norðursjónum en í dag. Þorsk- og síldarstofnar gætu minnkað enn meir en orðið er en þess í stað komi tegundir sunnan úr höfum eins og sardínur og ansjósur.

Þessar upplýsingar koma fram í grein í Fiskeribladet/Fiskaren. Þar segir að allt frá árinu 2000 hafi nýliðun í þorski, síld og fleiri algengum fisktegundum í Norðursjónum brugðist algjörlega. Þorskstofninn í Norðursjó hafi orðið einna harðast fyrir bresti í nýliðun. Haft er eftir fiskifræðingi á norsku hafrannsóknastofnuninni að ástæðan fyrir slakri stöðu þorsks í Norðursjó væri fyrst og fremst ofveiði. Hvað aðrar tegundir áhrærði væri slök nýliðun mikil ráðgáta. Það finnist til dæmis engin haldbær skýring á því hvers vegna síldarstofninn hafi verið á mikilli niðurleið ár eftir ár.

Fiskifræðingar hafa góða yfirsýn yfir sveiflur í fiskistofnum í Norðursjónum en skortir hins vegar þekkingu á því hvað ræður þessum sveiflum. Úr því ætla þeir að bæta. ,,Ef sjávarhitinn heldur áfram að hækka á næstu 20 árum í sama mæli og undanfarin 10 ár mun Norðursjórinn gjörbreytast. Þá minnkar þorskstofninn enn meir en sardínur og ansjósur koma í staðinn. Norðursjórinn verður alls ekki fisklaus en aðrar fisktegundir koma í stað þeirra fisktegunda sem mikilvægastar eru í dag,“ er haft eftir fiskifræðingi á norsku hafrannsóknastofnuninni.