mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hjalteyrin og Snæfell á leið í niðurrif

Guðjón Guðmundsson
23. september 2019 kl. 11:00

Skipin hafa þjónast eigendum sínum vel í tugi ára. Mynd/gugu

Nýr Harðbakur í lok október.

Hjalteyri EA og Snæfell EA, ísfisk-  og frystitogarar Samherja á Akureyri, eru á leið til Belgíu til niðurrifs eftir langa og dygga þjónustu. Snæfellið, áður Akureyrin, sem er 70 metra langur frystitogari, var smíðaður árið 1968 í Noregi, og Hjalteyrin, áður Björgúlfur, var smíðaður á Akureyri 1977. Hann er 50 metra langur.

Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir að verð fyrir brotajárn hafi snarlækkað á undanförnu einu og hálfu ári. Fyrirtækið kemst því einungis kostnaðarlítið frá því að koma skipunum á áfangastað og farga þeim en engar tekjur verða af því.

„Þetta eru gömul skip, 42 ára og 52 ára. Þegar þau komu á áttunda áratugnum voru menn alveg á því að þau myndu endast í heil tólf ár en þau hafa gert betur en svo. Það er söknuður af þessum skipum sem hafa verið mikil aflaskip. Hjalteyrin var í fullum rekstri alveg fram á síðasta dag. Við erum með færri skip núna en áður en erum vissulega að fá nýjan Harðbak frá Noregi í lok næsta mánaðar,” segir Kristján.

Harðbakur einn af sjö nýjum

Mikil endurnýjun er yfirstandandi í íslenska togaraflotanum. Í árslok 2017 voru undirritaðir samningar um smíði á sjö nýjum skipum fyrir fjögur íslensk útgerðarfyrirtæki. Tvö verða smíðuð fyrir Berg-Huginn, önnur tvö fyrir Gjögur, tvö fyrir Skinney-Þinganes og að síðustu Harðbakur, sem er smíðað fyrir Útgerðarfélag Akureyringa.

Öll þessi sjö skip verða komin til heimahafnar í lok nóvembermánaðar, ef ekkert óvænt kemur upp á. Vestmannaey, skip Bergs-Hugins, er þegar komið til landsins. Vörður, nýtt skip Gjögurs, er væntanlegt fyrir mánaðarmót og Bergey, annað skip Bergs-Hugins, fylgir strax á eftir.

Nýju skipin eru smíðuð af VARD í Noregi og fyrirkomulag og val á búnaði er unnið í samstarfi við útgerðirnar. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum.

Þessi nýju systurskip verða vel búin í alla staði og í þeim verða íbúðir fyrir 13 manns. Þau munu taka um 80 tonn af ísuðum fiski. Við hönnun skipanna hefur verið vandlega hugað að allri nýtingu á orku.

Við hönnun á vinnsludekki verður höfð að leiðarljósi vinnuaðstaða sjómanna, öflug kæling og góð meðhöndlun á fiski.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 18. september