föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hjarðeldi á þorski sagt borga sig

19. apríl 2011 kl. 15:41

Þorskur á sundi.

Hægt að nær tvöfalda aflaverðmætið með því að fóðra fisk eins og gert var í tilraun Hafró í Arnarfirði.

Nýlega birtist grein um arðsemi hjarðeldis á þorski í alþjóðlega tímaritinu Marine Policy eftir Jón Eðvald Halldórsson, Björn Björnsson og Stefán B. Gunnlaugsson. Þar kemur fram að unnt sé að tvöfalda aflaverðmæti þorsks með því að fóðra fisk eins og gert var í tilraun Hafrannsóknastofnunarinnar í Arnarfirði.

 Greinin byggir á tilraunum með hjarðeldi sem fóru fram í Arnarfirði á árunum 2005-06 á vegum Hafrannsóknastofnunar. Þar var komið upp fjórum fóðrunarstöðvum miðsvæðis í firðinum, tveimur nærri norðurströndinni og tveimur nærri suðurströndinni. Þangað var farið reglulega, 2-3 sinnum í viku með frosna loðnu í netpoka en þorskarnir söfnuðust að fóðrunarstöðvunum og rifu í sig fóðrið út um netmöskvana. Vaxtarhraði hjarðeldisfiskanna u.þ.b. þrefaldaðist miðað við villta fiska annars staðar í firðinum. Meðan á tilrauninni stóð var hluti af Arnarfirði lokaður fyrir almennum veiðum.


Í greininni er borinn saman sá möguleiki fyrir útgerðarfélag með 200 tonna þorskkvóta að í stað þess að veiða horaðan og smáan grunnslóðarfisk að fóðra fiskinn í hjarðeldi eins og gert var í Arnarfirði og þannig u.þ.b. tvöfalda meðalþyngd hans áður en veiðar færu fram. Miðað við gefnar forsendur er gert ráð fyrir að þá sé hægt að slátra um 360 tonnum af stórum fiski og u.þ.b. tvöfalda aflaverðmætið. Arðsemisútreikningar benda til að árlegur hagnaður yrði um 11 milljónir króna af hinum hefðbundnu fiskveiðum en 24 milljónir króna af hjarðeldinu.

Hjarðeldið kom einnig betur út miðað við að veiða villtan þorsk sem alinn er til slátrunar í sjókvíum og mun betur en þegar notuð eru eldisseiði sem klakin eru út í eldisstöð og síðar flutt út í sjókvíar.

 

Sjá nánar á vef Hafró.