sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hjartað í starfsemi Gæslunnar

Guðjón Guðmundsson
21. apríl 2019 kl. 07:00

Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar, og Björgólfur H. Ingason, aðalvarðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. MYNDIR/HAG

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og Vaktstöð siglinga vaka yfir miðunum og landinu

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er hjartað í starfsemi stofnunarinnar. Innan hennar er leitar- og stjórnstöð fyrir sjófarendur og loftför á Íslandi. Hún sinnir fiskveiðieftirliti og er landamærastöð fyrir ytri landamæri Schengen fyrir skipaumferð. Um leið er hún fjarskiptastöð fyrir skip og sinnir leiðarstjórnun fyrir Reykjanesið og inn í Faxaflóa.

Vaktstöð siglinga hefur verið starfandi á neðstu hæð í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð  frá árinu 2004. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bættist við árið 2005. Þar sitja að jafnaði þrír menn á hverri vakt við stóra skjái og fylgjast með skipaumferð við landið allan tíma sólarhringsins alla daga ársins. Tölvurnar eru samtengdar og starfsmenn geta tekið yfir störf hvers annars sé þörf á því. Á skrifstofuhæð Landhelgisgæslunnar  er greiningarstöð þar sem úrvinnsla á málum sem upp kunna að koma í samskiptum við skip fer fram.

Alls starfa 17 manns hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og vaktstöð siglinga  og eru ávallt þrír til fjórir á hverri vakt. Þótt tölvurnar séu samtengdar er verkaskipting innan vaktarinnar. Allir hlusta reyndar stöðugt eftir neyðarköllum kunni þau að berast. Á einu borði eru lesnar út veðurfréttir til flotans sem gert er á ákveðnum tíma sólarhringsins. Sendar eru út stormviðvaranir í gegnum talstöð meðan þær eru í gildi á þriggja tíma fresti. Þær eru einnig sendar í textaformi á fjarrita á langbylgju sem dregur 500 sjómílur út á haf. Veðurfréttirnar eru sendar út bæði á íslensku og ensku. Ennfremur er sinnt siglingaviðvörunum og móttöku viðvarana vegna til dæmis borgarísjaka á siglingaleiðum og svo framvegis.

30 mínútur til stefnu

Á öðru borði fer fram vöktun á skipum í sjálfvirka tilkynningarskyldukerfinu. Hættir skip eða bátur að senda frá sér sjálfvirkar tilkynningar er strax farið að grennslast fyrir um ástæður þess. Þegar Fiskifréttir heimsóttu stöðina voru einungis 116 skip á sjó og ekkert skip í „vöntun“, eins og það er nefnt. Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar , segir að á sumrin geti verið allt að eitt þúsund skip og bátar á sjó. Ekki sé óalgengt að 10-20 bátar séu í „vöntun“ á sama tíma og margvíslegum ástæðum. Sumir eru að veiðum í víkum fyrir vestan alveg upp við kletta þannig að merkin berast ekki. Aðrir drepa kannski á vélinni og aftengja allt rafmagn.

„10 mínútum eftir að merki hætta að berast fáum við viðvörun. Þá höfum við 30 mínútur til þess að hafa upp á viðkomandi og fá staðfest að allt sé í lagi. Það er allar aðferðir notaðar til þess að hafa samband. Takist það ekki förum við í útkall.“

Skönnun á óæskilegum aðilum

Á þriðja borðinu er tekið við tilkynningum frá skipum sem koma erlendis frá, hvort sem þau eru íslensk eða erlend. Sendar eru komutilkynningar, upplýsingar um farm, nöfn þeirra sem eru um borð, hve mikil olía er um borð og fleira. Oft reynist nauðsynlegt að leiðbeina skipstjórnendum hvernig eigi að standa að tilkynningunum. Tilkynningarnar fara síðan víða um kerfið, t.a.m. á hafnirnar, umhverfisstofnun, lögreglu- og tollayfirvöld og víðar.

Ásgrímur segir að á Íslandi hafi verið teknar upp vel flestar ef ekki allar reglugerðir Evrópusambandsins varðandi siglingar og flug og öryggisreglur og eftir þeim er farið. Tilkynningarskyldukerfi skipa sem koma erlendis frá í íslenskar hafnir sé til að mynda byggt á reglum Evrópusambandsins. Upplýsingarnar sem berast stöðinni á þessu sviði eru sendar áfram í upplýsingabanka á vegum Evrópusambandsins. Vegna aðildar Íslands að Schengen-samkomulaginu er landið landamærastöð. Kerfið þjónustar allar stofnanir sem liggja þarna að baki en upplýsingastreymið fer allt í gegnum stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og Vakstöð siglinga.

Stöðin tekur á móti nafnalistum yfir áhafnir og farþega skipa. Á skemmtiferðaskipum getur verið allt frá 200 og upp í 6.000 manns með áhöfn og farþegum. Nafnalistinn fer til Ríkislögreglustjóra sem gengur úr skugga um að óæskilegir aðilar inn á Schengen-svæðið eða einstaklingar sem hugsanlega eru á lista Europol eða Interpol séu ekki meðal áhafnar eða farþega. Ekki hefur þurft að grípa til aðgerða vegna farþega með skipum en komið hefur fyrir að í áhöfn skipa hafi verið einstaklingar sem eru óæskilegir inn á Schengen-svæðið samkvæmt þeim upplýsingum sem Landhelgisgæslan hefur fengið

Nær tvöföldun þyrluútkalla

Í sumum tilfellum þegar upp koma alvarlegri mál sem leiða til útkalls berst hringing frá Neyðarlínunni til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og Vaktöðvar siglinga. Dæmi um þetta var fyrirhugað sjúkraflug frá Ísafirði til Reykjavíkur fyrir skemmstu. Vegna veðurs gat Mýflug, sem sinnir sjúkraflugi ekki farið í loftið. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og komst ekki lengra en til Flateyrar vegna veðurs. Sjúklingurinn var fluttur með sjúkrabíl um göngin frá Ísafirði til Flateyrar og þaðan með þyrlunni til Reykjavíkur. Starfsmaður stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og Vaktstöðvar siglinga heldur utan um öll samskipti í tengslum við útkallið. Hann tengir lækninn á þyrluvaktinni við lækni vestur á Ísafirði, hefur samband við flugstjóra þyrlunnar sem hefur strax undirbúning, kallar út áhöfn þyrlunnar á meðan stöðin aflar allra veðurupplýsinga, lendingarupplýsinga og hvar hægt er að nálgast eldsneyti. Stöðin og flugstjórinn eru stöðugu fjarskiptasambandi meðan á flugi stendur.

Á vormánuðum og á sumrin eykst álagið til muna á stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og Vakstöð siglinga. Sjósókn eykst til muna  vegna strandveiðanna en einnig bætist við aukinn fjölda ferðamanna, jafnt á sjó og landi.

„Við stýrum ekki aðgerðum á landi en við tökum þátt í björgunum. Það kemur fyrir að við höfum verið í erfiðu útkalli inni á landi þegar annað útkall kemur úti á sjó sem við erum ábyrgir fyrir. Á sumrin má segja að við séum alveg á nálum. Oft erum við að brenna upp áhöfnunum og reynum að benda öðrum viðbragðsaðilum á að athuga hvort einhverjir aðrir möguleikar séu til björgunar. Úti á sjó eru í flestum tilvikum ekki aðrir möguleikar en þyrla. Á árinu 2011 voru 160 útköll á þyrlunum en þau voru 278 á síðasta ári. Aukningin hefur verið gríðarleg á hverju ári,“ segir Ásgrímur.

Risavaxið leitar- og björgunarsvæði

Leitar- og björgunarsvæði Íslands er mun stærri en efnahagslögsagan og nær til að mynda alveg suður af Hvarfi og hafsvæðið í kringum Færeyjar að stærstum hluta sé um flugatvik að ræða. Fjærst  nær það 710 sjómílur frá landi. Í norðri nær það vel norður fyrir  Jan Mayen. Þetta er það svæði sem Ísland ber ábyrgð á varðandi leit- og björgun.

Reglan er sú hjá Landhelgisgæslunni að ef einungis er hægt að senda eina þyrlu á loft þá er miðað við að hún fari ekki lengra  en 20 sjómílur út frá strönd. Þetta byggir á reglum Flugöryggisstofnun Evrópubandalagsins. Sé hægt að senda tvær þyrlur á loft er miðað við að sú þyrla sem fer í útkallið geti farið  150 sjómílur út frá strönd. Sé flugvél Landhelgisgæslunnar einnig til reiðu er hægt að sækja 235 sjómílur út frá strönd. Hlutverk flugvélarinnar er að treysta samskipti við þyrluna og skanna veðurfaraðstæður fyrir framan þyrluna. Í varðskipum Landhelgisgæslunnar og dönskum eftirlitsskipum á hafsvæðinu í kringum Íslands er búnaður til eldsneytisáfyllingar fyrir þyrlur Gæslunnar. Í sumar var farið í útkall langt norður í höf. Þannig vildi til að varðskip var fyrir norðan land og skip á leið frá Jan Mayen til Íslands með sjúkling. Hægt var að bæta afköst  þyrlunnar sem flaug til móts við skipið með eldsneytisáfyllingu á flugi, jafnt á útleið sem heimleið. Þetta er einungis gert við ákjósanlegar  aðstæður.

Þörf fyrir þyrlur víðar

Vegna stærðar landsins og efnahagslögsögunnar segir Ásgrímur að ákjósanlegt væri að  staðsetja þyrlur víðar en á suðvesturhorninu. Þegar tölur eru skoðaðar eru langflest þyrluútköllin á vesturhluta landsins. „Sumir myndu draga þá ályktun að þar væri mesta þörfin. En raunin er sú að á vegalengdin til Norðuraustur- og Austurlands er það mikil að menn reyna að finna aðrar leiðir til þess að sinna útköllum. Flugið til Egilsstaða tekur allt að tveimur klukkutímum og sé veður áhagstætt getur þyrla þurft  að fljúga meðfram ströndinni sem lengri flugið enn frekar. Það er mun óalgengara að þyrlur Landhelgisgæslunnar séu kallaðar r út vegna göngufólks í vanda uppi á fjöllum á Austurlandi heldur en   að sækja göngufólk á Esjuna og í Reykjadalinn, svo dæmi séu tekin. Oft er þá þyrlan í æfingaflugi í nágrenninu og aðgengið er auðveldara,“ segir Ásgrímur.