miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hlakkar til að flytja með Hafró

Guðsteinn Bjarnason
10. ágúst 2019 kl. 07:00

Þór Heiðar Ásgeirsson, forstöðumaður Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna. MYND/GB

Nýr forstöðumaður er tekinn við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna, en skólinn flytur í vetur til Hafnarfjarðar og segir líklega skilið við Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Þór Heiðar Ásgeirsson er tekinn við af Tuma Tómassyni sem forstöðumaður Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna. Tumi verður áfram í hálfu starfi við skólann, en Þór hefur starfað við skólann nánast frá upphafi.

Þór segir engin áform um miklar breytingar á starfseminni, en þó hlakkar hann mikið til að flytja í nýtt hús Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði, þar sem skólinn fær inni.

„Aðstaðan þar verður held ég miklu betri. Það verður meira tillit tekið til okkar þarfa,“ segir hann.

Húsið er risið og reiknað er með afhendingu líklega í október eða nóvember.

„Við höfum vaxið mjög hratt,“ segir Þór um skólann sem hóf störf fyrir um tveimur áratugum. Nemendahópurinn var lítill í fyrstu, en nú koma hingað um 25 manns á hverju ári í sex mánaða þjálfunarnám sem er uppistaðan í starfi skólans.

Skólinn heldur góðu sambandi við fyrri nemendur, sem margir hverjir eru komnir í mikilvægar áhrifastöður heima fyrir.

Velvild iðnaðarins
Þór segir miklu skipta hve iðnaðurinn hér á landi hefur tekið vel á móti nemendum skólans.

„Við erum afskaplega þakklát fyrir það. Þessir nemendur koma hingað með mikla reynslu og það er mjög mikilvægt fyrir þau að skynja þessa velvild sem iðnaðurinn sýnir okkur. Þau eru búin að starfa kannski í tíu til fimmtán ár heima fyrir í þessum bransa og venjulega er iðnaðurinn í þróunarlöndunum mjög lokað fyrirbæri. Þeir eru tortryggnir og erfitt að komast inn í hann.“

Þegar líður á veturinn má búast við grundvallarbreytingu á stofnanaumgjörð skólans.

„Við erum að fara frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna,“ segir Þór. Stefnt er að því að skólarnir fjórir sem tilheyra Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi, nefnilega Jarðhitaskólinn, Jafnréttisskólinn og Landgræðsluskólinn auk Sjávarútvegsskólans, verði framvegis starfræktir undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

„Þetta er að vinnast hratt þessa dagana og við vonum að fyrir áramót klárist þeir samningar sem þurfa að vera til staðar til að koma þessu af stað,“ segir Þór.

Unnið með fagfólki
Ástæðan er sú að ýmsar breytingar hafa orðið á Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem henta ekki þeirri starfsemi sem stunduð hefur verið undir formerkjum hans hér á landi.

„Þeir vinna meira í stærri málum og gefa út skýrslur um þau málefni sem eru mikilvæg fyrir Sameinuðu þjóðirnar á hverjum tíma. Við á hinn bóginn erum meira að skoða hagnýtar rannsóknir og þjálfun sérfræðinga, og okkar nálgun hefur gefist mjög vel.“

Þetta sé langtímaverkefni sem felst í því að fara til samstarfslandanna, sem eru þróunarlönd, og leggja þar mat á þörfina.

„Við förum inn í sjávarútvegsgeirann, stjórnsýsluna, og hittum þá sérfræðinga sem bera ábyrgð á fagsviðum sjávarútvegsins.“

Nemendur eru þannig valdir inn í skólann í samráði við stjórnvöld í hverju landi.

„Við erum ekki í grasrótinni með fátæka fólkinu, heldur með fagfólkinu sem er að vinna með stjórnmálafólki og stefnumótandi aðilum. Það eru ekkert margir í heiminum sem eru að gera þetta.“