fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hluthafafundur Brims samþykkti tillögur

13. desember 2019 kl. 09:45

Vigri RE 71

Endanleg ákvörðun um að auðvelda erlendum aðilum óbeina aðild og um kaup Brims á Kambi og Grábrók bíða þó báðar aðalfundar á næsta ári. Þá greinir Brim frá því að þorsveiðin sé að glæðast á ný.

Hluthafafundur Brims hf. samþykkti í gær tillögu um að auka möguleika erlendra aðila til óbeinnar fjárfestingar í félaginu. Endanleg ákvörðun bíður þó aðalfundar fyrirtækisins sem haldinn verður á næsta ári. 

Hluthafafundurinn samþykkti einnig kaupin á Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf., en bæði félögin hafa verið í eigu Hjálmars Þórs Kristjánssonar, bróður Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims. Kaupverðið nemur 3.084 milljónum króna og verður greitt að hluta með hlutabréfum í Brimi hf. og nema þau 1,1 prósenti af heildarhlutafé Brims.

Brim greinir einnig frá því á vef sínum að frystitogarinn Vigri RE hafi hrökklast af Vestfjarðamiðum í fárviðri vikunnar. Árni Gunnólfsson skipstjóri segir að siglt hafi verið til Reykjavíkur í millilöndun meðan veðrið gengi yfir.

Aflinn hafi hins vegar verið mjög góður og þorskurinn sé kominn aftur.

„Við fengum góða þorskveiði á svæðinu austan við Strandagrunn og vestur á Halann. Við vorum með um 330 tonna afla upp úr sjó eftir átta sólarhringa og þar af fór einn í að liggja í vari.“