þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Hlutur Íslands í makrílnum ætti að vera 1-2%"

31. október 2009 kl. 15:30

 ,,Það var dómgreindarleysi af Íslendingum að mæta ekki á samningafundinn um makrílstofninn. Þeir hefðu átt að nota tækifærið til viðræðna í stað þess að sýna hefðbundna þrjósku sína,” segir Audun Maråk formaður samtaka útvegsmanna í Noregi (Fiskebåt) í samtali við sjávarútvegsvefinn Intrafish.

Maråk segir að Ísland verði ekki tekið gilt sem strandríki í þessum veiðum nema það samþykki þá hlutdeild sem hin ríkin, sem veitt hafi úr stofninum í áraraði og borið hafi ábyrgð á nýtingu hans, telji verjandi að úthluta Íslendignum.

 Hann viðurkennir þó að útbreiðsla stofnsins hafi einnig eitthvað að segja um kvótaúthlutun úr honum, en sem kunnugt er hefur makríll gengið í mjög ríkum mæli á Íslandsmið síðustu tvö árin.

Í máli Maråks kemur fram að strandríkin hafi ekki komið fram með sameiginlegar tillögur um það hvað bjóða eigi Íslendingum en hans skoðun sé sú að eðlilegur hlutur Íslands væri 1-2% af heildarmakrílkvótanum eða sem svarar 6-12 þúsund tonnum miðað við núverandi kvótaúthlutun. Íslendingar hafi hins vegar staðhæft að þeir hafi veitt 112 þúsund tonn bæði í ár og í fyrra sem sé það bil 20% miðað við útgefinn heildarkvóta allra hinna ríkjanna.

Maråk telur fullvíst að Íslendingar muni fá að veiða makrílinn í lögsögum annarra ríkja, ef samningar náist, og geti þá margfaldað verðmæti aflans með því að veiða fiskinn á þeim tíma þegar hann sé verðmætastur.

Því má bæta hér við að Íslendingar hafa í meira en áratug óskað eftir því að fá að koma að samningaborðinu um skiptingu makrílstofnsins en ávallt verið hafnað. Nú síðast var Íslendingum boðið að koma inn á lokadegi samningafundarins en islensk stjórnvöld sáu ekki ástæðu til að þiggja boðið enda ávallt krafist þess að vera viðurkennd sem fullgildir samningsaðilar.