mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hnúðlaxar hafa veiðst í um 60 ám

Svavar Hávarðsson
29. ágúst 2019 kl. 09:00

Hængurinn er auðþekktur en hrygnan síður og er oft ruglað saman við sjóbleikju. Mynd/nina.no

Fleiri hnúðlaxar hafa veiðst í sumar en áður hefur þekkst - heildartalan ekki ljós fyrr líður á veturinn.

Ljóst virðist að göngur hnúðlaxa í íslenskar ár séu meiri en áður hefur þekkst. Spá sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar þar um hefur ræst enda hafa Fiskifréttir upplýsingar um veidda hnúðlaxa á stöng úr um 60 ám hringinn í kringum landið í sumar.

Fyrstu fréttir um veiddan hnúðlax bárust strax í upphafi laxveiðitímabilsins þegar einn slíkur kom á land í Ölfusá fyrir landi Hrauns í Ölfusi 2. júlí síðastliðinn. Þá gaf Hafrannsóknastofnun út það álit sitt að talsvert margir hnúðlaxar kæmu til með að veiðast í sumar. Í kjölfar vaxandi gengdar hnúðlaxa í íslenskar ár 2017, þegar um 70 hnúðlaxar veiddust í ám víðsvegar um landið, var við þessu að búast.

Fiskifréttir hefur tekið saman lista yfir þær ár og vatnakerfi þar sem einn eða fleiri hnúðlaxar hafa veiðst í sumar. Var það gert með heimildaöflun frá Hafrannsóknastofnun, úr fréttum og könnun meðal veiðimanna. Niðurstaðan er sú að hnúðlax hefur sannarlega veiðst í 57 ám í sumar og ljóst að listi blaðsins er hvergi nærri tæmandi, ef að líkum lætur. Hins vegar er ljóst að hnúðlax veiðist hringinn í kringum landið, og ef eitthvað er sérstaklega áberandi fyrir norðan hvað fjölda í einstökum ám varðar. Gæti það hins vegar vel tengst því að þar hefur verið gott veiðivatn í sumar öfugt við Suðvestur- og Vesturland.

Fjöldinn enn óþekktur

Guðni Guðbergsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, er sá sem sá þetta fyrir. Í spjalli við Fiskifréttir segir Guðni að nákvæm tala yfir veidda laxa á þessum tímapunkti liggi ekki fyrir. Augljóst sé þó að þeir verða mun fleiri en sumarið 2017 þegar þessi gestur var mjög áberandi. Í einstökum ám hafi komið á land 6-8 laxar sem búið er að tilkynna um, en í öðrum er um staka laxa að ræða. Niðurstaðan verði þó ekki staðfest fyrr en búið er að lesa úr veiðibókum, sem verður ekki gert fyrr en eftir nokkurn tíma.

Öll kurl eru svo sannarlega ekki komin til grafar, að sögn Guðna.

„Nú er kominn hrygningartími svo mögulega fara menn að sjá dauða hnúðlaxa innan tíðar þar sem þeir drepast eftir hrygningu,“ segir Guðni en hann telur ekki ólíklegt að hnúðlaxinn sé orðinn hluti af ferskvatnsvistkerfinu hér á landi, eins og víða í Evrópu. Það eigi hins vegar eftir að koma í ljós.

Hafa dreift sér

Hnúðlax er af ætt Kyrrahafslaxa en þeir voru fluttir yfir í Atlantshaf.  Fyrst á árunum fyrir 1960 frá Kamchatka til Kolaskaga í Rússlandi. Fyrsti hnúðlaxinn veiddist hér á landi 1961 og hefur þeirra orðið vart í litlum mæli flest ár síðan sem villufisk úr sleppingum. Smám saman hefur hnúðlax náð að dreifa sér og hefur myndað stofna í ám í Rússlandi og norður hluta Noregs. Sumarið 2017 varð mjög mikil aukning í fjölda hnúðlaxa og varð þeirra vart í talsverðum mæli í ám í Noregi, á Bretlandseyjum, Frakklandi og Spáni. Hvort hnúðlaxar nái að nema land í ám hér á landi er ekki enn vitað né hvort þeir kunni að hafa áhrif á stofna laxfiska hér á landi. Hnúðlaxahængar hafa áberandi hnúð á baki og oft með rauðan lit á kvið. Hrygnum er oft ruglað saman við bleikju en hnúðlaxahrygnur hafa m.a. doppur á sporði og bakugga sem er ekki á bleikju.

Mikilvægt er að veiðimenn sem veiða hnúðlaxa skrái þá í veiðibækur og komi upplýsingum um þá til Hafrannsóknastofnunar.

Hér á eftir fer listi yfir þær ár þar sem hnúðlax hefur sannarlega veiðst í sumar - en listinn er örugglega ekki tæmandi.

Grímsá

Hvítá í Borgarfirði

Straumfjarðará

Deildará á Sléttu

Eyjafjarðará

Hafralónsá

Sog

Ölfusá

Miklavatn í Fljótum

Norðurá

Selá í Vopnafirði

Blanda

Sandá

Laxá í Aðaldal

Þjórsá

Fögruhlíðará

Breiðdalsá

Bjarnarfjarðará

Laxá í Kjós

Langadalsá

Stóra Laxá

Fnjóská

Dalsá í Fáskrúðsfirði

Eskifjarðará

Héðinsfjarðará

Norðurá í Skagafirði

Norðfjarðará

Víðidalsá

Ytri – Rangá

Vatnsdalsá í Vatnsfirði

Laxá á Refasveit

Laxá í Leirársveit

Flókadalsá í Borgarfirði

Svarfaðardalsá

Selfljót

Geirlandsá

Hofsá í Vopnafirði

Laxá í Dölum

Þverá í Borgarfirði

Eystri – Rangá

Litlaá í Kelduhverfi

Selá í Steingrímsfirði

Hrútafjarðará

Lónsá á Langanesi

Miðfjarðará (silungasvæði)

Skjálfandafljót

Hítará

Laxá á Skaga

Fáskrúð í Dölum

Ólafsfjarðará

Staðará í Steingrímsfirði

Sléttuá í Reyðarfirði

Svalbarðsá

Hítará

Sunnudalsá í Vopnafirði

Haukadalsá

Húseyjarkvísl

Vatnsdalsá

Miðfjarðará