mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úr þorskaneti á internet

1. október 2012 kl. 13:48

Hnúfubakur með gervihnattarmerki. (Mynd: Tryggvi Sveinsson)

Hnúfubakur sem flæktist í net við Hrísey kominn með gervihnattarmerki.

 

Hafrannsóknastofnunin hefur í ár haldið áfram rannsóknum sem miða að því að kanna ferðir hvala með gervitunglasendum. Þessar rannsóknir hafa þegar skilað markverðum upplýsingum um far nokkurra hvalategunda s.s. hnúfubaks, hrefnu og steypireyðar.

Þann 28. september sl. bárust stofnuninni fregnir af hnúfubak sem flækst hafði í veiðarfæri netabáts í Eyjafirði þá um morguninn. Tryggvi Sveinson skipstjóri og rannsóknarmaður á Hafrannsóknastofnuninni fór með skipverjum á netabátnum að freista þess að losa hvalinn úr prísundinni og setja á hann gervitunglamerki. Vel gekk að losa hvalinn og koma merkinu fyrir á baki hvalsins. Dýrinu virtist ekki hafa orðið meint af þessu ævintýri og synti rösklega sinn veg.

Hvalurinn hélt sig fyrst um sinn nálægt merkingarstað suðaustan við Hrísey. Helginni eyddi hnúfubakurinn út af Ólafsfirði og Héðinsfirði, en hélt þaðan lengra norður og var staddur í Eyjafjarðarál, rúmlega 10 sjómílur norður af Siglunesi að morgni mánudags 1. október. Hægt er að fylgjast með ferðum hnúfubaksins á vef Hafrannsóknastofnunarinnar