þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Höfum afsalað okkur auðlindinni til Norðmanna

Guðjón Guðmundsson
14. apríl 2020 kl. 08:30

Magnús Þór Hafsteinsson þýddi Undir yfirborðinu. Mynd/gugu

Komin er út bókin Undir yfirborðinu – Norska laxeldisævintýrið- Lærdómur fyrir Íslendinga eftir norska blaðamanninn Kjersti Sandvik í þýðingu Magnús Þórs Hafsteinssonar sem jafnframt ritar eftirmála og aftanmálsgreinar.

Komin er út bókin Undir yfirborðinu – Norska laxeldisævintýrið- Lærdómur fyrir Íslendinga eftir norska blaðamanninn Kjersti Sandvik í þýðingu Magnús Þórs Hafsteinssonar sem jafnframt ritar eftirmála og aftanmálsgreinar. Í bókinni er fjallað um mikinn uppgang í laxeldi í Noregi, það sem vel hefur tekist og þau vandamál sem fylgt hafa uppbyggingu laxeldis.

Sandvik hefur sem blaðamaður fjallað um fiskeldismál í aldarfjórðung og var samstarfsmaður Magnúsar Þórs þegar hann starfaði sem blaðamaður á Fiskaren í Noregi árin 1996-2000.

„Hún er skarpgreind, vönduð og yfirveguð í vinnubrögðum. Hún er umhverfissinnuð og telur mikilvægt að verja villta laxinn. Hún  telur að í honum felist mikil verðmæti, ekki síst fyrir sjálft laxeldið því í villtum laxi er erfðabankinn fyrir laxeldið. Þurfi menn í framtíðinni að kynbæta í laxeldi verða þeir að leita í villtu laxastofnana að erfðavísum sem duga í baráttunni gegn sjúkdómum. Villtir laxastofnar eiga því miður mjög undir högg að sækja í Noregi og hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum eftir að laxeldið hófst,“ segir Magnús Þór.

Vandamálin sem fylgja laxeldi

Í bókinni fjallar Sandvik um það sem vel hefur tekist til í laxeldi í Noregi. Hún heimsækir sveitarfélag í Norður-Noregi sem mátti muna fífil sinn fegurri. Það glímdi við dæmigerðan byggðavanda en blómstraði eftir að laxeldi hófst þar.

„Hún fer einnig yfir vandamálin sem hafa fylgt fiskeldinu og tiltekur þar sérstaklega vandamál vegna laxalúsar, sjúkdóma, mengunar af völdum laxeldis og slysasleppingar. Þetta eru allt þekkt vandamál sem allir kannast við. Hún bendir einnig á hvernig laxeldið hefur ítök, t.a.m. inn í stjórnmálin og víðar, og hvernig greinin bregst við gagnrýni oft á tíðum. Hún segir greinina oft mála sig upp sem fórnarlamb í stað þess að beita sjálfsgagnrýni og leggja sitt af mörkum til þess að leysa viðfangsefnin.“

Í bókinn fjallar Sandvik einnig um fóðurmál, fóðurskort og skort á hráefni í fóður. Fjallað er um eiturefni í fóðri sem síðan berst í afurðina. Í bókinni eru hátt í 300 aftanmálsgreinar þar sem höfundur vitnar til heimilda máli sínu til stuðnings.

Sanngjörn umræðubók

„Heilt yfir finnst mér bókin vera sanngjörn og fjallað er um það af hreinskilni hvernig staðið hefur verið að málum. Hvernig saga laxeldisins hefur verið og þróunin. Sandvik ræðir við aðila í greininni sem koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þetta er blaðamannabók og ég kalla svona bækur umræðubækur. Þetta er ekki fræðirit en innlegg í umræðuna og bókin er skrifuð af manneskju sem hefur mikla þekkingu á umfjöllunarefninu. Vissulega hefur hún sínar skoðanir og sjónarmið og hún dregur ekki dul á það. Hún vill slá skjaldborg í kringum villtu laxastofnana og segir að eldi í opnum flotkvíum í sjó sé ekki hentug eldisaðferð vegna slysaslepping, lúsarvandamála og mengunar. Eldi eigi að vera í lokuðum kerfum uppi á landi eða úti á sjó og nú er verið að þróa slík kerfi í Noregi. Málsmetandi menn í norsku laxeldi hafa líka sagt að í þessu felist framtíðin í laxeldi.“

Bók sem á erindi til Íslendinga

Úthafseldi er ein tegund af þessum lokuðu kerfum sem eru að ryðja sér til rúms í Noregi. Nú er jafnvel rætt um að breyta risaolíuskipum í fljótandi laxeldisbúgarða sem mætti færa til eftir aðstæðum hverju sinni.

Bókin er skrifuð árið 2016 og vakti talsverða athygli þegar hún kom út. Hún hefur verið endurskoðuð og uppfærð og kemur nú út í íslenskri þýðingu með aftanmálsgreinum eftir Magnús Þór til útskýringa fyrir íslenska lesendur.

Magnús Þór segir engin vafa leika á því að bókin eigi brýnt erindi til Íslendinga. Nú hafi sömu aðilar og fjallað er um bókinni hafið laxeldi á Íslandi með sömu eldistækni og eldisaðferðir. Þeir eigi nú orðið yfirgnæfandi meirihluta í íslensku laxeldi í sjó.

„Það er ástæða fyrir því að ég þýði þessa bók. Ég tel hana eiga mikið erindi inn í umræðuna hér á landi. Hér er á ferðinni mikill  fróðleikur um hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig í Noregi. Þetta þurfum við Íslendingar að vita. Við erum að afhenda þessum fyrirtækjum firðina okkar nánast endurgjaldslaust. Við erum að láta af hendi náttúruauðlind og við þurfum að vita hvaða aðilar eru hér á ferð og hvaða vandamál þeir hafi staðið frammi fyrir í sínu eldi fram til þessa. Þessir aðilar eru ekki hingað komnir af hreinni hugsjónamennsku. Að baki býr auðvitað gróðavon. Þetta eru atvinnurekendur sem vilja fá afrakstur af sínu fjármagni eins allir aðrir atvinnurekendur.“

Braskað með leyfin

Sandvik fjallar um útgáfu á laxeldisleyfum í Noregi og greinir frá því hvernig braskað hefur verið með leyfin. Leyfin hafa fengist fyrir lágt verð frá norskum stjórnvöldum sem töldu á sínum tíma útilokað að farið yrði að braska með þau. Verðmætin væru ekki fólgin í leyfunum sem slíkum heldur afurðinni og tækjunum.

„Farið var að braska með þessi leyfi í Noregi fyrir gríðarlegar fjárhæðir. Bara rétt eins og gert er með kvótann hér á Íslandi sem menn kaupa og selja sín á milli. Menn fengu í raun óútfylltar ávísanir frá norska ríkinu sem þeir seldu síðan hver öðrum. Margir fengu skyndilega ofsagróða fyrir eldisleyfi sem þeir nýttu sér aldrei en fengu ókeypis frá norska ríkinu. Það er bullandi umræða um þetta í Noregi og tekist á um þetta. Rými fyrir eldi í Noregi er takmörkuð auðlind. Það hefur verið sett þak á fjölda eldisleyfa en líka hafa umhverfisvandamál hamlað frekari uppbyggingu.“

Leyfin í norskum höndum um aldur og ævi

Magnús Þór segir það mikið umhugsunarefni fyrir Íslendinga, sem hafa í 30 ár staðið fyrir því að mennta fólk í fiskeldi, að geta ekki sjálfir byggt upp laxeldi í eigin landi.

„Hvers vegna leyfum við Norðmönnum að koma hingað og hirða firðina okkar. Hvers vegna nýtum við ekki sjálf þessar auðlindir? Er þetta skortur á áhættufjármagni? Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki reyndu fyrir sér fyrir nokkrum árum, bæði Samherji og HB Grandi. Gáfust menn of snemma upp? Færeyingar hafa aldrei gefist upp. Eldisleyfin í Færeyjum eru á færeyskum höndum og laxeldi gengur þar mjög vel í dag.“

Magnús Þór segir að eldisleyfin á Íslandi verði í norskum höndum um aldur og ævi nema innlendir kaupi af þeim leyfin. Og þau verði ekki til sölu nema fyrir rétt verð.

„Við höfum afsalað okkur þessari auðlind í hendur norskra eldisfyrirtækja. Mér finnst það mikið umhugsunarefni. Ég hef heyrt því fleygt að ástæðan fyrir þessu sé sú að ekkert innlent fjármagn hafi verið aðgengilegt fyrir íslenska aðila til að hefja uppbyggingu í laxeldi. Bankarnir vildu ekki lána í verkefni af þessu tagi enda kannski illa  brenndir af fyrri tilraunum. Þess vegna hafi verið leitað til Norðmanna. Að Íslendingar,  með alla sína þekkingu og reynslu úr sjávarútvegi, geti ekki alið lax við strendur Íslands finnst mér stórfurðulegt,“ segir Magnús Þór.

Birtist upphaflega í páskablaði Fiskifrétta 8. apríl