þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hollustunasl úr íslensku hráefni

Guðsteinn Bjarnason
10. maí 2020 kl. 09:00

Dr. Holly T. Kristinsson ætlar sér að framleiða hollustunasl úr íslensku hráefni. MYND/Cat Gundry Beck

Responsible Foods hefur tryggt sér fjármögnun.

Íslenskt sjávarfang verður ein helsta uppistaðan í nýju nasli sem sprotafyrirtækið Responsible Foods hyggst setja á markað á næstunni. Hollustan verður í fyrirrúmi og verðmæti unnin úr hágæða aukaafurðum.

„Eitt af markmiðum Responsible Foods er að umbylta því hvernig við framleiðum nasl úr sjávarfangi og nýta til þess verðminni hráefni til að búa til hágæða afurðir fyrir bæði innlendan og erlendan markað á sjálfbæran hátt,“ segir Dr. Holly T. Kristinsson, stofnandi fyrirtækisins.

Hún segir sérstaklega litið til hráefna sem falla til við flakavinnslu á hvítfiski og laxfiski en einnig uppsjávartegundir eins og til dæmis makríl.

„Hægt er að ná miklum verðmætum úr þessum hágæða hráefnum,“ segir hún og fullyrðir að með þeirri tækni og aðferðafræði sem Responsible Foods beitir sé „hægt að búa til afurðir sem eru engum líkar hvað varðar bragð, næringargildi og áferð og opnar á ný arðbær tækifæri fyrir íslenskt sjávarfang.“

Hún segir mikla eftirspurn vera eftir nasli sem er lítið unnið, hollt, bragðgott og unnið úr hágæða rekjanlegum náttúrulegum hráefnum.

Laust við fiskilyktina

„Vegna þess hvernig hráefnið er unnið þá fæst ekki þessi mikla og sterka fiskilykt sem landinn þekkir úr hefðbundið unnum harðfiski og bragðgæðin eru langtum betri.“

Hún nefnir að Bandarískir neytendur "nasli" um það bil þrisvar sinnum á dag, en fáir hollir kostir séu í boði þrátt fyrir að neytendur séu teknir að sækjast eftir hollari kostum.

„Á sama tíma borða um 70% neytenda í BNA ekki ráðlagt magn af sjávarfangi en á sama tíma hefur þessi hópur mikinn áhuga á að auka hlut sjávarfangs í fæðu þess en nánast engir naslkostir eru í boði.“

Hún segir Resonsible Foods bjóða upp á nýjan spennandi valkost fyrir þennan hóp, enda séu þetta „bragðgóðar og hollar vörur sem eru líka með mjög langt geymsluþol við stofuhita sem kemur sér vel á þessum tímum.“

Þar að auki segist Holly líka sjá í þessu stór tækifæri fyrir hágæða vörur fyrir gæludýr. Sá markaður velti núna um 100 milljörðum Bandaríkjadala og mikil eftirspurn sé eftir vörum eins og þeim sem Responsible Foods muni framleiða.

Öflug fyrirtæki fjárfestu

Í fréttatilkynningu segir að Responsible Foods ehf hafi lokið fjármögnun fyrir vel á aðra hundrað milljón króna. Spakur Finance hafi aðstoðað við fjármögnun fyrirtækisins og um sé að ræða fyrri hluta fjármögnunar fyrirtækisins.

„Öflug fyrirtæki fjárfestu í fyrirtækinu og ber þar að nefna Mjólkursamsöluna, Lýsi, og Ó. Johnson og Kaaber, sem mun einnig sjá um dreifingu á vörum fyrirtækisins á Íslandi. Þetta samstarf mun leiða til mikilvægrar verðmætasköpunar og framþróunar fyrir þá aðila sem að því koma og styrkja bæði samkeppnishæfi þeirra og einnig íslenskan efnahag. Að auki fjárfesti öflugur hópur einstaklinga í Responsible Foods, þar á meðal systurnar Marta og Helga Árnadætur og bræðurnir Halldór H. og Jón Gunnar Jónssynir.“

Holly ólst upp í Alaska en kolféll fyrir íslensku hráefni og mat þegar hún flutti til Íslands 2015. Hún segir einstök tækifæri fólgin í því að koma íslenskum afurðum á markað erlendis í öðru formi en áður hefur verið gert.

Hún stofnaði fyrirtækið Responsible Foods árið 2019 með það að markmiði að umbylta naslmarkaðnum. Ætlunin er að setja á markað nýtt heilsunasl sem fyrirtækið hefur þróað undir vörumerkinu Næra.

Fyrirtækið er nú að leggja lokahönd á að setja upp framleiðslu á NæraTM vörunum í Reykjavík í húsnæði Sjávarklasans og mun setja fyrstu vörur á markað á Íslandi snemmsumars á þessu ári. Lögð er áhersla á að auka útflutningsverðmæti íslenskra afurða og áætlar fyrirtækið að ráða á þriðja tug starfsmanna í fjölbreytt störf á næstu árum.