sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrefnukvótinn tvöfaldaðist

12. júní 2009 kl. 15:00

Hrefnukvótinn tvöfaldaðist, fór úr 100 dýrum sem áður hafði verið rætt um að mætti veiða í 200 dýr, þegar Hafrannsóknastofnun kynnti veiðiráðgjöf sína í síðustu viku, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu

Gunnar Bermann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf., sagði í samtali við Fiskifréttir að í reglugerð, sem Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, gaf út í vetur um hvalveiðar, hefði verið kveðið á um það að fjöldi dýra sem veiða mætti færi eftir veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Í raun hefði vald sjávarútvegsráðherra til að ákveða kvóta því verið framselt til Hafró. Í fyrra hljóðaði ráðgjöf Hafró upp á 100 dýr en var aukin í 200 dýr í ár.

,,Við hjá Hrefnuveiðimönnum ehf., sem er félagsskapur þeirra manna sem hafa stundað hrefnuveiðar undanfarin ár, höfum leyfi á þrjá báta, Njörð KÓ, Dröfn RE og Halldór Sigurðsson ÍS. Leyfið af Nirði KÓ var flutt yfir á Jóhönnu ÁR og hann fer því ekki á veiðar. Hinir bátarnir tveir hafa sinnt öðrum verkefnum. Í ljósi breyttra aðstæðna erum við að meta hvað gert verður, hvort við sendum fleiri skip á veiðar og hvað mikið verði reynt að veiða. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun ennþá enda er stutt síðan veiðiráðgjöfin var kynnt,“ sagði Gunnar.

Þess má geta að tveir bátar hafa fengið leyfi til hrefnuveiða til viðbótar, eins og fram hefur komið í fréttum.

Talið er að unnt sé að selja 50-60 hrefnur á innanlandsmarkaði og hugsanlega allt að 80 dýr. Gunnar sagði að ef veitt yrði meira en heimamarkaður tæki við yrði kjöt af þeim dýrum selt til Japan