þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrefnuveiðin fer vel af stað

25. maí 2016 kl. 10:05

Hrefnuveiðar 2010

Sex dýr komin á land

Hrefnuvertíðin byrjar vel og nú þegar eru komin sex dýr á land. Hrafnreyður KÓ landaði sínu þriðja dýri í vikunni og Rokkarinn KE hefur landað tveimur.

Gunnar Bergmann, hjá IP útgerð, sem gerir út bátana og vinnur hrefnuna fyrir verslanir og veitingastaði hér á landi, segir þetta mun betri byrjun en í fyrra en þá hafði um þetta leyti einungis einu dýri verið landað.

Fram til þessa hafa hvalveiðibátarnir einungis verið að veiðum í Faxaflóa. Gunnar segir að góð byrjun núna gefi fyrirheit um gott framhald. Stefnt sé að veiði á um 50 dýrum en einungis 25 dýr veiddust í fyrra og varð að grípa til innflutnings á hrefnukjöti frá Noregi til að sinna innanlandsmarkaði. Þá var líka einungis Hrafnreyður við veiðarnar. Heimilt er að veiða 200 dýr.

Verslanir um allt land selja hrefnukjöt að Húsavík undanskilinni. Þar telja menn sölu á kjötinu geta skaðað fyrirtæki sem standa fyrir hvalskoðunarferðum. Gunnar segir að margir Húsvíkingar hafi nú þegar lagt inn pantanir beint til IP útgerðar á kjöti til eigin neyslu.

Gunnar segir að neysla á hrefnukjöti hafi aukist gríðarlega í takt við aukinn fjölda ferðamanna hér á landi. Fyrir nokkrum árum var 70% alls hrefnukjöts selt í verslunum um land allt en nú hafi orðið algjör viðsnúningur og á milli 60-70% kjötsins fari á veitingastaði.