þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrefnuveiðum hætt

2. ágúst 2018 kl. 08:00

Hrefnuveiðar 2010

Lokun Faxaflóa hefur gert veiðarnar dýrar og erfiðar

„Faxaflóanum var hreinlega lokað, það er kannski meginskýringin,“ segir Gunnar Bergmann hjá IP útgerð um stöðuna á hrefnuveiðum í ár. Einungis sex dýr hafa verið veidd og Gunnar segir ekki útlit fyrir að meira verði sótt þótt leyfilegt sé að veiða 262 hrefnur í ár.

„Við ákváðum að setja hold á þetta í byrjun júlí og einbeita okkur að einhverju öðru.“

IP útgerð hefur gert út bátinn Hrafnreyði til hrefnuveiða. Einungis einn annar bátur, Krókurinn, hefur virkt leyfi til hrefnuveiða, en hann hefur ekkert farið af stað í sumar.

„Ef við ættum að elta þessa línu sem var færð út í Faxaflóa þá gengur það ekki öðru vísi hjá okkur en að vera með fjóra réttindamenn um borð. Fyrir vikið verður þetta allt erfiðara og dýrara.“

Þá hafa það sem af er árinu einnig verið veiddar 46 langreyðar, en heimilt er að veiða 238 dýr. Leyfi til hvalveiða voru síðast veitt til fimm ára og renna út í ár. Ekki er víst að þau verði framlengd.

„Við höfum alveg fullan hug á þvi að halda þessu áfram, en það verður bara að koma í ljós hvernig pólitíkin spilar með þetta,“ segir Gunnar. Hann reiknar þó fastlega með því að halda áfram að flytja inn hrefnukjöt frá Noregi til að anna eftirspurn hér heima.