mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hreinsunarstarfið gengur vel

15. febrúar 2013 kl. 17:20

Skólanemendur tíndu síld úr fjörunni um daginn en nú sjá stórvirkar vinnuvélar um að urða síldina. (Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson)

Vinna við að grafa dauða síld í fjörunni í Kolgrafarfirði langt komin

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að starfshópur ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og fjármálaráðuneytis vinni tillögur til ríkisstjórnar um útgjöld vegna þeirra verkefna, sem ráðast þarf í vegna síldardauðans í Kolgrafafirði. Vel miðar í hreinsunarstarfi í Kolgrafafirði – vinna við að grafa dauða síld í fjörunni er langt komin og flutningur á grút úr fjörunni er hafinn.

Þann 5. febrúar sl. samþykkti ríkisstjórnin sex milljóna króna fjárveitingu vegna eftirlitsáætlunar í Kolgrafafirði eftir að stórfelldur síldardauða varð þar í tvígang á undanförnum vikum. Sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar telja að 30 þúsund tonn af síld hafi drepist á svæðinu í desember 2012 og nú í febrúarbyrjun hafi um 22 þúsund tonn drepist til viðbótar.

Mikið fuglalíf er á svæðinu og er því mikil hætta á að grútur setjist í fjaðrir fugla með neikvæðum afleiðingum. Eftirlitsferð sérfræðinga Náttúrustofu Vesturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands í gær leiddi í ljós að töluverður fjöldi arna er á svæðinu en svo virðist sem aðeins einn til tveir þeirra hafi komist í snertingu við grútinn. Grúturinn virðist þó ekki hamla örnunum því allir ernir sem sást til eru fleygir. 

Sjá nánar HÉR