mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hringuðu landið og gerðu ágætan túr

7. febrúar 2019 kl. 11:35

Frystitogarinn Blængur NK. (Mynd: Hákon Ernuson)

Blængur NK er að landa eftir 22 veiðiferð - aflinn er 540 tonn upp úr sjó að verðmæti 160 milljónir króna.

Frystitogari Síldarvinnslunnar í Neskaupstað - Blængur NK - er að landa í heimahöfn í dag að aflokinni tuttugu og tveggja daga veiðiferð. Aflinn er 540 tonn upp úr sjó að verðmæti 160 milljónir króna. Uppistaða aflans er karfi, ýsa og þorskur.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Theodór Haraldsson skipstjóri segir þar að veiðiferðin hafi byrjað heldur rólega en síðan hafi ræst vel úr henni.

„Við byrjuðum fyrir austan um miðjan janúar, en þar var þá heldur lítið að hafa. Þá fórum við vestur fyrir í Þverálinn og þaðan út á Hala. Á Halanum var heldur lítill afli og næst var farið í Víkurálinn í karfa. Karfinn var þorskblandaður þar og því var ákveðið að halda til karfaveiða í Jökultunguna. Við enduðum síðan túrinn fyrir austan í Hvalbakshallinu í góðri ýsuveiði. Á þessu sést að veiðiferðin var hringferð, við veiddum hringinn í kringum landið. Í túrnum var tíðin heldur rysjótt og það hafði auðvitað áhrif en þegar upp er staðið var þetta fínasti túr,“ segir Theodór.