sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hröð útbreiðsla makríls torveldar rannsóknir

Svavar Hávarðsson
7. júlí 2018 kl. 07:00

Makríll. (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Norskir sérfræðingar véfengja niðurstöður úr fjölþjóðlegum makrílleiðangri árið 2016.

Norskir sérfræðingar telja slíka ágalla á fjölþjóðlegum makrílleiðangri árið 2016 að niðurstöður hans hljóti að teljast marklausar. Einna helst er gagnrýnt að leiðangurinn hafi ekki náð til alls þess svæðis sem makríll hefur sölsað undir sig á undanförnum árum. Sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar segir gagnrýni sem þessa hafi komið fram áður.

Um er að ræða svokallaðan makríleggjaleiðangur sem er farinn á þriggja ára fresti yfir stórt hafsvæði á löngum tíma – eða u.þ.b. sex mánaða tímabil; frá febrúar til júlí. Þessi leiðangur sem nú er gagnrýndur var farinn 2016 og er áætlaður næst árið 2019. 

Markmið leiðangursins var að áætla stærð hrygningarstofns makríls í Norðaustur-Atlantshafi. Leiðangurinn er skipulagður af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES). Mælingarnar eru taldar mikilvægur hluti af stofnstærðarmælingu makríls á hafsvæðinu og þar með mati á veiðiþoli stofnsins. Vísitala um stofnstærð frá leiðangrinum reiknast út frá svokallaðri eggjaframleiðsluaðferð en hún byggir á að meta fjölda eggja á hrygningarsvæði makrílsins. Með margvíslegum forsendum er heildarfjöldi eggja ásamt mati á meðal frjósemi makríls notuð til að ákvarða fjölda hrygna sem stóðu undir hrygningunni. Hrygning makríls hefst við strendur Portúgals í febrúar og teygir sig allt norður í íslensku landhelgina og lýkur í byrjun ágúst.

Sýnatakan var þar af leiðandi gríðarlega umfangsmikil en alls komu að henni tíu Evrópulönd - Portúgal, Spánn, Írland, Bretland, Holland, Danmörk, Þýskaland, Noregur, Færeyjar og Ísland. Aðkomu að rannsóknum höfðu ellefu rannsóknastofnanir og á vegum þeirra voru farnir tuttugu rannsóknaleiðangrar frá því í febrúar og fram í ágúst.

Á hraðri leið norður

Guðmundur J. Óskarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að með hverjum leiðangri síðan 2010, en þá bættist Ísland í hóp þátttakenda í leiðangrinum, hefur leiðangurssvæðið verið að færast lengra norður á boginn til að fylgja á eftir auðsjáanlegri norðlægari hrygningu makrílsins. Því náði leiðangursvæðið árið 2016 lengra norður en áður. 

„Það var hinsvegar ljóst að ekki fundust mörk hrygningarinnar til norðurs, því að egg fundust á nyrstu leggjunum sem er ekki gott - við viljum helst núlla okkur í allar áttir. Það er hins vegar alveg óvíst hversu mikið af makríl hafði hrygnt norðar, og hvort það hafi verið eitthvað sem skipti máli fyrir heildarvísitöluna. Ég segi þetta því að mesti þéttleiki hrygningarinnar árið 2016 var ennþá vestan við Bretlandseyjar líkt og er hefðbundið, en minna inn í Biskay-flóa þar sem megin hrygningin átti sér stað árið 2013. Það er því munur milli ára hvar megin hrygningin á sér stað en einnig hversu snemma hún er t.d. var hún óvenju snemma árið 2013 í Biskay-flóa og var m.a. rætt um hvort að hrygningin hafi verið byrjuð áður en leiðangurinn fór af stað,“ segir Guðmundur.

Gagnrýnin ekki ný af nálinni

Guðmundur segir að gagnrýni eins og sú sem nú kemur frá norskum sérfræðingum hafi komið upp áður. Fyrir árið 2016 hafi það verið hvort allt útbreiðslusvæðið hafi verið dekkað; árið 2013 var það sama uppi á teningnum en til viðbótar hvort allur hrygningartíminn hafi verið dekkaður og því hvort leiðangurinn hafi byrjað nógu snemma. 

„Þessu er engan veginn hægt að svara og það sem gerir þetta erfitt er að leiðangurinn er aðeins á þriggja ára fresti og breytingar eru auðsjáanlega að eiga sér stað með útbreiðslu makríls á hrygningartíma líkt og við þekkjum með útbreiðsluna á fæðuslóð á sumrin. Það er erfitt að fylgja breytingum eftir þegar leiðangur er á þriggja ára fresti,“ segir Guðmundur og bætir við að aðferðir, gagnasöfnun og niðurstöður leiðangranna séu yfirfarnar og metið hvort staðið hafi verið að öllu með réttum hætti og hvort gögnin standist allar kröfur og viðmið til að nota í stofnmatslíkanið. 

„Það þurfa eðlilega að vera alvarlegir meinbugir á gögnunum svo þeim sé kastað. Það hefur ekki verið metið svo innan þeirrar vinnunefndar sem sér um leiðangurinn og því hefur stofnmatsvinnunefndin notað niðurstöður allra þessara eggjaleiðangra,“ segir Guðmundur.

Egg við Ísland

Til að bregðast við þessum sýnilegu breytingum á hrygningu makríls hafa verið farnir smærri leiðangrar, milli þessara stóru, til að undirbúa og leggja drög að skipulagningu meginleiðangranna, sem hér um ræðir. Írskt rannsóknaskip var t.d. að reyna að kortleggja útbreiðslu hrygningarinnar sunnan og suðaustan við Ísland í fyrrasumar og mun gera það aftur í sumar komandi. Í fyrra fundu Írarnir makrílegg allt vestur að Reykjanesi og með öllu Suðurlandi. Þéttleiki eggja var hinsvegar ekki mikill að öllu jöfnu. 

Hvað gerist í stofnmatinu?

Stofnmatið á makríl byggir ekki eingöngu á niðurstöðum eggjaleiðangursins. Inn í stofnmatslíkanið koma einnig aldursvísitölur (fjöldi eftir aldri) frá alþjóðlega togleiðangrinum í júlí sem Hafrannsóknastofnun er þátttakandi í, aldursvísitölur frá makrílmerkingum (út frá endurheimtum),  nýliðunarvísitölur frá botnfiskaleiðangri í viðbót við aldursvísitölur frá aflasýnum. Vísitölur frá þessum mismunandi gagnaröðum hafa verið að togast á síðustu árin. Þannig hefur togleiðangurinn verið að sýna stækkandi stofn allt til ársins 2017 meðan að hrygningarleiðangurinn sýnir minni stofn 2016 en bæði árin 2010 og 2013. Merkingargögnin fylgja meira eggjaleiðangrinum.   

„Það að niðurstöður leiðangra sýni mismunandi þróun á stofnstærð er óheppilegt en alls ekki óalgengt. Þar þarf því að skoða gögnin og öflun þeirra á gagnrýnan hátt, en þeim verður ekki kastað eingöngu á þeim forsendum að þau sýni misvísandi niðurstöður. Á það sérstaklega við varðandi stofnmat makríls þar sem tímaseríur gagnanna eru flestar stuttar sem gerir stofnmatið óstöðugt og óáreiðanlegra en flest önnur. Við trúum því hins vegar að við séum að byggja upp gagnseríur sem munu gera stofnmatið áreiðanlegra á komandi árum,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir jafnframt að síðustu ár hefur magn uppvaxandi makríls farið vaxandi við strendur Noregs. Það er líklega afleiðing af norðlægari hrygningu en áður. 

„Þetta er líklegast ástæða þess að Norðmenn eru að véfengja áreiðanleika eggjaleiðangursins frá 2016. Þetta segir hins vegar ekki hversu mikið magn hafi hrygnt norðan við yfirferðarsvæði leiðangursins árið 2016, aðeins önnur vísbending um að slíkt hafi átt sé stað. Reynt verður að gera betur í þessu í leiðangrinum sem farinn verður næst árið 2019 og verður þá farið norðar en nokkru sinni áður, en spurningin er hvort það muni nægja“ segir Guðmundur.