miðvikudagur, 22. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrognataka hafin á Akranesi

21. febrúar 2014 kl. 12:51

Loðnuhrognavinnsla hjá HB Granda á Akranesi. (Mynd: Fiskifréttir).

Löndun hófst úr Lundey NS þar í morgun.

Fyrsti loðnufarmur vertíðarinnar barst til Akraness í gærkvöldi. Það var skip HB Granda, Lundey NS 14, sem kom með fullfermi eða um þúsund tonn.

„Við komum til Akraness í gærkvöldi. Það átti að skoða aflann og taka úr honum prufur til að athuga hvort loðnan væri komin með nógu þroskuð hrogn. Það varð niðurstaðan að svo væri. Því hófst löndun úr skipinu hér á Akranesi í morgun. Að öðrum kosti hefðum við þurft að sigla austur á Vopnafjörð til löndunar,“ segir Stefán Geir Jónsson fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Lundey í viðtali á vef Skessuhorns

Aflinn fékkst í Faxaflóa og því nærtækt að sigla með farminn til Akraness þar sem HB Grandi er með fiskimjölsverksmiðju og aðstöðu til hrognatöku og frystingar. 

„Við vorum 12 til 15 sjómílur suður af Snæfellsjökli þar sem við fengum þetta á 70 til 80 faðma dýpi. Þarna fundum við tvær töluvert stórar loðnutorfur með um tíu sjómílur á milli. Við náðum þúsund tonnum og fullfermi í tveimur köstum með nótinni þrátt fyrir að það væri leiðindaveður. Þetta er væn og falleg loðna. Þeir ætla að taka úr henni hrogn hér á Akranesi,“ segir Stefán Geir ennfremur í viðtalinu.