sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrygning hnúðlaxa staðfest hérlendis

Svavar Hávarðsson
25. júní 2018 kl. 07:00

Mynd/NINA

Metfjöldi hnúðlaxa veiddist hér í fyrrasumar eins og í Noregi og víðar

Nú er staðfest að hnúðlax hrygndi í að minnsta kosti tveimur íslenskum veiðiám í fyrrasumar, en þá veiddust óvenju margir hnúðlaxar í íslenskum ám eða 66 talsins hið minnsta. Komu þeir fram í veiði í öllum landshlutum.

Á fundum Landssambands veiðifélaga hefur verið fjallað um málið og staðfesting hrygningar kemur fram í fréttabréfi sambandsins.

Hnúðlax er af tegund kyrrahafslaxa sem fluttir voru til Kolaskaga í Rússlandi á árunum um 1960 þar sem þeim var sleppt til hafbeitar. Norskir miðlar greina frá því að mikið magn seiða finnst nú í ám í Norður-Noregi en vitað var að hrygnandi stofnar hnúðlaxa eru komnir í ár á Kolaskaga í Rússlandi og í Norður-Noregi. Í fréttabréfinu segir að ekki sé vitað hvort þessi tegund komi til með að nema hér land né hvaða áahrif hún kann að hafa. Mikilvægt sé að fylgjast vel með því en meira er jafnan af hnúðlaxi þegar ártalið stendur á oddatölu en jafnri tölu.

Guðni Guðbergsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að sú tala gæti hugsanlega hækkað þegar lokatalningu er lokið upp úr veiðibókum síðasta sumars. Spurður um hrygningu hnúðlaxins segir Guðni:

„Það fannst úthrygnd hrygna í Soginu í ágúst og önnur veiddist í september á Vestfjörðum líklega í Mjólká. Það sýnir að hér hefur orðið hrygning hvað sem svo kemur út úr því. Það má gera ráð fyrir að aðeins hluti laxanna hafi veiðst svo það gæti hafa verið hrygning a.m.k. í allnokkrum ám. Hnúðlax hefur heldur stærri hrogn en almennt gerist hjá Atlantshafslaxi og það líða um 610 gráðudagar [°C x dagar] frá frjóvgun til klaks samanborið við um 420 gráðudaga hjá Atlantshafslaxi. Hrygningartími hnúðlaxa er einnig fyrr en er hjá okkar laxi. Ég held að það sé ekki auðvelt að leita að seiðum hnúðlaxa án þess að hafa haft vissu um hvar nákvæmlega þeir hafa hrygnt. Mögulega gætu glöggir veiðimenn haft augun hjá sér ef þeir ummerki um hrygningu síðsumars, sem þá væri hægt að fylgjast með að vori og skoða afkomuna,“ segir Guðni og bætir við að eins og fram hafi komið í fréttum voru þúsundir hnúðlaxa veiddir í Noregi 2017 og því auðveldara að leita þar sem menn vita að hrygning hefur átt sér stað.

Laxatorfur

Það var Norsk institutt for naturforskning (NINA) sem greindi frá þessum aflabrögðum í Noregi í fyrrasumar og sendi frá sér sérstaka fréttatilkynningu um málið, en hnúðlaxinn er flokkaður sem sérstök ógn við lífríki norskra áa.

Eva B. Thorstad, sérfræðingur hjá NINA, greindi frá því þá að stór hluti af veiddum hnúðlöxum þar í landi voru gott sem allir tilbúnir í hrygningu. Veiðitölurnar sögðu þó ekki nema hálfa söguna. Fréttir bárust frá Finnmörku, frá köfurum þar nyrðra, að þeir höfðu talið 1.200 hnúðlaxa í Komag-ánni í Finnmörku, nyrsta fylki Noregs. Svipaða sögu er að segja úr fleiri ám á svæðinu.

Kominn langt að

Hnúðlaxinn, sem einnig er nefndur bleiklax, tilheyrir ættkvísl kyrrahafslaxa. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru í norðanverðu Kyrrahafi, með hrygningarstofna austan þess í Bandaríkjunum og Kanada og vestan þess í Rússlandi, Japan og Kóreu. Hann er mest veidda laxategundin í Norður -Kyrrahafi, en hann er eingöngu veiddur í sjó og illa hæfur til manneldis þegar kynþroska er náð og því lítt eftirsóttur af veiðimönnum í ferskvatni, að því kemur fram í gögnum Hafrannsóknastofnunar [Veiðimálastofnunar], sem birtust sumarið 2015 þegar nokkuð hafði borið á fregnum af hnúðlaxi í afla veiðimanna. Laxarnir höfðu þá veiðst víðsvegar um landið og tilkynningar borist úr Þjórsá, Ytri Rangá, Hamarsá í Hamarsfirði, úr Skjálfandafljóti, Þorskafjarðará og Soginu.

Þar segir einnig að hnúðlax veiddist fyrst á Íslandi svo vitað sé árið 1960. Síðan þá hafa þeir veiðst af og til og eru taldir flækingar.

„Ástæðuna fyrir því að hnúðlaxar koma fram í íslenskum ám má rekja til rússneskra tilrauna með útsetningu frjóvgaðra hrogna í ár á Kolaskaga. Hófust þær árið 1956 þar sem notuð voru hrogn úr stofni ættuðum frá suðurhluta Sakhalin eyju. Þær tilraunir gáfust illa og það var ekki fyrr en notuð voru hrogn úr norðlægari stofni frá Magadan héraði í Síberíu sem sjálfbærir stofnar mynduðust í Hvítahafi og Barentshafi. Síðan þá hafa þeir verið að nema land m.a. í Finnmörku í N-Noregi.“

Stofnarnir í Finnmörku hafa verið vaxandi allt frá síðustu aldamótum, en nú virðist sem mun meira af þessum laxi, sem er enginn aufúsugestur, sé á ferðinni. Það er þó ekki bundið við Noreg heldur hefur hans orðið vart í nokkru mæli í ám í Bretlandi, eins og stórar fréttaveitur hafa gert sér mat úr.

Gæti numið hér land

Hnúðlaxinn er ein af þeim tegundum Kyrrahafslaxa sem deyr eftir hrygningu. Þar sem lífsferillinn er mjög staðlaður, seiði ganga til sjávar stuttu eftir klak og fiskurinn eyðir svo ári í sjó áður en hann gengur til hrygningar, þá eru hnúðlaxgöngur í mörgum ám aðeins annað hvert ár. Reynslan sýnir að hnúðlaxa er helst að vænta hér á landi þegar ártalið ber uppá oddatölu. Það gæti bent til uppruna frá Finnmörku, en norskar rannsóknir hafa sýnt að oddatöluárgangur hafi fest þar rætur.

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa varað við því að ekki sé útilokað að hnúðlax geti numið land í íslenskum ám og þess vegna er mikilvægt að veiði slíkra fiska sé vandlega skráð. Sérstaklega er því hvatt til þess að stofnuninni sé greint frá því undantekningarlaust þegar hnúðlax veiðist hér, og sama hvar.

Ekki hefur umræðan þróast hérlendis í þá átt að vistkerfi íslenskra lax- og silungsveiðiáa stafi mikil hætta af hnúðlaxinum. Hins vegar bárust fréttir um það í fyrrasumar að veiðimenn hafi sett í þrjá hnúðlaxa í Soginu og landað tveimur á dagparti. Það vekur upp spurningar. Fyrst þeir settu í þrjá á stuttum tíma – hvað eru þá margir á ferðinni? Ofan á það bætist að hrygning í Soginu er staðfest, eins og Guðni bendir á.

Þungar áhyggjur

Norðmenn, hins vegar, hafa af hnúðlaxinum þungar áhyggjur, eins og vel sést á fréttaflutningi NINA. Þeir óttast að norskum ám stafi bein hætta af hnúðlaxinum, og þá bæði laxa- og silungastofnum. Reyndar gengur Eva B. Thorstad svo langt að segja að ógnin nái til alls vistkerfisins. Það er í þeim anda sem hnúðlaxinn er ofarlega á svörtum lista NINA yfir framandi tegundir þar í landi.