þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Huginn VE kominn heim eftir lengingu

Guðjón Guðmundsson
15. nóvember 2018 kl. 10:42

Huginn VE 55 kominn til heimahafnar. MYND/ÓSKAR FRIÐRIKSSON

Mun afkastameira skip eftir breytingu

Sjö manna áhöfn Hugins VE 55 kom til heimahafnar í gær eftir veru í Gdansk í Póllandi þar sem skipið var lengt. Að baki er fjögurra sólarhringa sigling til Vestmannaeyja á skipi sem nú er 7,2 metrum lengri en það var þegar siglt var frá Eyjum í apríl síðastliðnum. Skipið hefur allt verið tekið í gegn og stefnt er að því að halda á kolmunnaveiðar.

Guðmundur Huginn Guðmundsson skipstjóri segir verkið hafa tafist talsvert enda að mörgu að huga í endurbótum á skipinu sem var smíðað í Chile árið 2001.

Áætlað var að verkinu lyki um miðjan ágúst að að skipið yrði komið aftur til Vestmannaeyja í september. Umbæturnar reyndust umfangsmeiri en í fyrstu var ætlað og tafðist því afhendingin sem þessu nam. Eftir lengingu er Huginn VE rúmir 82 metrar á lengd.

Lestarrými eykst stórum

„Þetta er gott skip og við hefðum aldrei farið út í þessar breytingar nema vegna þess að við vissum það. Hann hefur líka breiddina, fjórtán metra, og hann verður bara betra skip eftir breytinguna. Það er búið að endurnýja hann og skvera vel upp.“

Auk lengingar var skipið allt sandblásið og ýmsar lagnir endurnýjaðar. Lestar voru skveraðar, breytingar gerðar á skiljara og rennum, uppröðun á efra dekki breytt, hjálparspil voru tekin upp og fremri dekkkrani og skipið málað hátt og lágt að utan og innan.

Með lengingunni stækkar lestarrýmið um 600 rúmetra sem deilist niður á þrjár lestir. Ein lestanna er frystilest en stóra breytingin á skipinu er aukin burðargeta og það getur nú jafnt fryst úti á sjó og komið með fisk til vinnslu í landi sem er kældur í RSW kerfi skipsins. Huginn segir að í þessu skyni hafi miklar endurbætur hafi verið gerðar á RSW kælikerfinu. Með þessu aukast afköst skipsins til muna.

Kvótinn tekinn með leiguskipum

Ekki þurfti að endurnýja mikið af tækjum í skipinu því þau eru flest nýleg. Þó var keyptur nýr asdik og ýmislegur búnaður settur upp í vélarrýminu. Járnleiðslum í kælikerfinu hafi einnig verið skipt út fyrir plastleiðslur og ný tölvustýring sett upp svo fátt eitt sé nefnt.

Þrátt fyrir miklar tafir hefur útgerðin veitt sinn kvóta með leiguskipum, fyrst á Jóni Kjartanssyni SU sem var leigður af Eskju hf. og gerður út á kolmunnaveiðar og síðan Guðrúnu Þorkelsdóttur SU sem m.a. landaði fyrsta makrílfarmi síðastliðins sumars í Vestmannaeyjum. Huginn segir að þessi skip hafi reynst útgerðinni vel.

Í síðustu viku fór Guðrún Þorkelsdóttir á síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum og stóð til að túrarnir yrðu tveir. Huginn verður að líkindum gerður út á kolmunna fram að jólum.

„Það verður ekki annað sagt en að það sé talsverð óvissa framundan hvað varðar loðnuna og reyndar aðrar uppsjávartegundir líka. Það er svo sem ekki nýtt að menn blási af loðnuvertíð en svo rætist yfirleitt úr málum. Það eru bjartsýnismenn sem stunda uppsjávarveiðarnar og málin bjargast nú oftast fyrir horn.“