miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hugur í mönnum á nýju kvótaári

4. september 2020 kl. 13:00

Landað úr Vestmannaey VE á síðasta degi nýliðins kvótaárs. Mynd/Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaey og Bergey lönduðu góðum afla eftir stuttan tíma.

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu báðir í heimahöfn í Vestmannaeyjum síðastliðinn mánudag, á síðasta degi nýliðins kvótaárs. Komu skipin að landi eftir stutta veiðiferð og var afli Vestmannaeyjar 40 tonn og afli Bergeyjar 37 tonn.

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Skipin héldu aftur til veiða á ný á mánudagskvöld og lönduðu bæði í morgun eftir að hafa verið tvo daga að veiðum. Vestmannaey reyndi við karfa við Eyjar og landaði 33 tonnum en Bergey fiskaði þorsk og ufsa á Víkinni og landaði 50 tonnum. Skipin eru gerð út af Bergi-Hugin, dótturfélagi Síldarvinnslunnar og segir Arnar Richardsson rekstrarstjóri að kvótaáramótin hafi verið hin fínustu og nýja kvótaárið leggist vel í sig þó það fari hægt af stað. 

„Það er alltaf hugur í mönnum þegar nýtt kvótaár gengur í garð og ég er viss um að það á eftir að verða farsælt,“ segir Arnar.