þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Humarhakk er ný afurð

24. júní 2015 kl. 12:44

Humar

Kjötið, sem er úr humarklóm, hefur farið til spillis hingað til.

Humarsalan og Skinney-Þinganes munu á næstunni kynna nýja vöru úr hágæða humarkjöti, eins konar humarhakk, sem fengið er úr humarklóm. Kjötið hentar því vel í humarbollur, humarborgara og aðrar sambærilegar kræsingar. Frá þessu er skýrt á vef Sjávarklasans. 

Um 10-15% af þyngd hvers humars er kjöt inni í klóm hans. Það hefur löngum verið kostnaðarsamt vandamál í humarvinnslu að losa sig við klær af slitnum humri, en hingað til hefur gengið erfiðlega að vinna kjötið í klónum þannig að svari kostnaði. Klærnar hafa því verið urðaðar með tilheyrandi kostnaði eða mjöl unnið úr þeim, en fyrir það fæst alla jafna lágt verð. Nú hefur verið fundin lausn á þessum vandkvæðum og varan lítur nú dagsins ljós.

Ætla má að allt að 100 tonn af kjöti sem fast var í humarklóm hafi farið til spillis á síðasta ári hér á landi svo hér er um stórt tækifæri að ræða til að bæta nýtingu hráefnisins og búa til nýja hágæða vöru á sama tíma.