föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hundrað handteknir í átaki gegn þrælkun í tælenskum sjávarútvegi

15. febrúar 2016 kl. 10:49

Tælenskt rækjuskip.

Lögreglan hefur frelsað 130 ánauðuga starfsmenn

Yfir 100 manns hafa verið handteknir í Tælandi í átaki lögreglu gegn þrælkun í sjávarútvegi landsins, að því er fram kemur í frétt á vef BBC.

Í apríl á síðasta ári hótaði Evrópusambandið að setja viðskiptabann á sjávarafurðir frá Tælandi nema tekið yrði hart á ólöglegum veiðum og þrælkun vinnuafls.

Lögreglan segir að sérstakur átakshópur hafi rannsakað 36 mál og frelsað 130 ánauðuga starfsmenn. Flestallir þeirra sem voru handteknir voru ákærðir og þar af hafa 36 verið dæmdir til fangavistar.

Tæland er þriðji stærsti útflytjandi sjávarafurða í heiminum. Mannréttindasamtök hafa lengi bent á og beitt sér gegn misnotkun vinnuafls í tælenskum sjávarútvegi. Þau segja að Tælendingar stundi ólöglegar fiskveiðar, ofveiði fiskistofna og flytji inn vinnuafl frá nágrannalöndum sem starfi við óboðlegar aðstæður sem séu í ætt við nútíma þrælahald.