miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hundruð vísindamanna vara við bandarísku frumvarpi

5. nóvember 2017 kl. 08:00

Fiskveiðibátur siglir til hafnar í Gouchester í Massachusetts, Bandaríkjunum. MYND/EPA

Bandaríkjaþing vill auka sveigjanleika fiskveiðistjórnunar. Ray Hilborn segir þó mikilvægt að huga að fleiri hættum en ofveiði. Áform um námuvinnslu ógna rauðlaxi í Alaska.

Meira en 200 vísindamenn hafa sent Bandaríkjaþingi áskorun um að grafa ekki undan helstu fiskveiðistjórnunarlöggjöf Bandaríkjanna. Nýlegt frumvarp liggur fyrir þinginu sem ætlað er að „auka sveigjanleika við stjórn fiskveiða.“

Sveigjanleikinn er sagður nauðsynlegur til að styrkja stöðu sjómanna og stöðugleika í sjávarbyggðum.

Til að ná fram sveigjanleika yrði hins vegar stundum nauðsynlegt að víkja að nokkru frá þeim vísindalegu forsendum sem um langt árabil hafa verið grundvöllur fiskveiðistjórnunar í Bandaríkjunum.

Í opnu bréfi sínu skora vísindamennirnir á þingmenn að hafna þessu frumvarpi, og fleiri frumvörpum svipaðs efnis sem nú liggja einnig fyrir þingi.

Aðrar leiðir
Bandarísk þingnefnd tók málið fyrir í síðustu viku og kallaði til sín nokkra sérfræðinga, þar á meðal Ray Hilborn prófessor í hafrannsóknum við Washington-háskóla. Hilborn kom hingað til lands í september síðastliðnum í tengslum við alþjóðlegu sjávarútvegsráðstefnuna World Seafood Congress eins og greint var frá hér í Fiskifréttum á sínum tíma.

Á fundi nefndarinnar þann 24. október síðastliðinn, en þetta er viðskipta-, vísinda- og samgöngunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, varaði hann við því að vikið verði frá því vísindalegum grunni fiskveiðistjórnunar í Bandaríkjunum, en benti þó á að fara megi aðrar leiðir við vísindalega ráðgjöf en hingað til hefur verið gert.

„Núverandi kerfi við uppbyggingu fiskstofna er hannað með það í huga að stöðva ofveiði – án tillits til þess hvernig það kemur niður á heildarveiðinni, markaðnum og byggðarlögunum,“ skrifar Hilborn í vitnisburði sínum sem hann kynnti á fundi nefndarinnar. „Ef vísindasamfélaginu væri gert að hámarka efnahagslegt virði bandarískra fiskveiða eða afköst þeirra, þá yrðu uppbyggingaráætlanirnar með allt öðrum hætti.“

Önnur áhyggjuefni
Nánar tiltekið segir hann að helstu hættur sem steðja að fiskistofnum og líffræðilegri fjölbreytni i vistkerfi sjávar nú um stundir séu súrnun sjávar, hlýnun, hnignun strandbúsvæða, framandi tegundir, framburður frá landi og mengun.

„Ofveiði er áhyggjuefni fyrir suma stofna en ætti ekki að vera lengur mikilvægasta áhyggjuefnið í fiskveiðistefnu Bandaríkjanna,“ segir hann.

Reynslan sé að vísu sú að alls staðar þar sem tekist hefur að koma böndum á fiskveiðar hafi hagnaður í greininni aukist og stöðugleiki komist á veiðarnar, jafnvel þótt bæði úthald við veiðar og tilkostnaður þeirra hafi minnkað. Hins vegar hafi þær aðferðir sem notaðar hafa verið við að draga úr fiskveiðum leitt til þess að smábátum hafi fækkað og samþjöppun hafi orðið á eignarhaldi.

„Okkur hefur ekki tekist að finna neinar aðferðir til að úthluta fiskveiðiheimildum sem taldar eru sanngjarnar af öllum sem hlut eiga að máli,“ skrifar Hilborn í greinargerð sinni.

Hann tók þó skýrt fram að fiskveiðistjórnunarlöggjöf Bandaríkjanna hafi gegnt miklu hlutverki við að byggja upp fiskstofna og gera bandarískar fiskveiðar sjálfbærar.

„Enduruppbyggingu veiðistofnanna má rekja beint til þess að dregið var úr fiskveiðiálagi frá því á tíunda áratug síðustu aldar,“ segir hann.

Alvarleg ógn við rauðlaxinn
Ray Hilborn segist hafa meiri áhyggjur af öðrum ógnum við fiskveiðar en ofveiði. Fiskveiðum stafi til dæmis meiri hætta af mengun og loftslagsbreytingum. Í vitnisburði sínum hjá nefndinni tók hann sérstaklega sem dæmi umdeild áform fyrirtækisins Northern Dynasty Minerals um að hefja námuvinnslu við Bristolflóa í suðvesturhluta Alaska.

Þar eru nefnilega helstu uppeldisstöðvar rauðlaxins í Vesturheimi, en veiðar á rauðlaxi hafa undanfarna hálfa öld verið í öðru sæti yfir arðsömustu veiðar Bandaríkjanna.

Pebble-námuverkefnið svonefnda, sem snýst um að vinna gull, kopar og aðra verðmæta málma úr jörðu við Bristolflóa, hefur lengi verið umdeilt. Bandarísk stjórnvöld stöðvuðu þessi áform árið 2014, þegar Barack Obama var forseti, eftir margra ára rannsóknir vísindamanna sem sýndu að áhrifin yrðu óafturkræf. Námuvinnslan sé þess eðlis að henni fylgja stórhættuleg efni sem geta valdið miklum skaða á lífríkinu.

Pruitt gaf grænt ljós
Daginn eftir að Donald Trump var kosinn forseti rauk verðið á hlutabréfum í fyrirtækinu upp um fjórðung og þau héldu áfram að stíga í verði, enda var vitað að Trump hafði mikinn áhuga á að heimila þessa námuvinnslu.

Scott Pruitt, sá sem Trump gerði að yfirmanni Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna, gerði sér svo lítið fyrir nú í haust og ákvað að stjórnvöld tækju aftur til skoðunar hvort gefa eigi leyfi fyrir þessu námuverkefni.

Hilborn segist hafa haldið til Bristolflóa á hverju sumri síðustu tuttugu árin til að rannsaka vistkerfið þar og veiðarnar. Honum hrýs hugur við að þessi námuvinnsla verði að veruleika.

„Sú hugmynd að baneitruð efni megi geyma til eilífðar undir jarðvegsfargi í vistkerfi sem er afar gljúpt, og undirorpið jarðskjálfta- og gosvirkni, er hlægileg. Pebble námuverkefnið er alvarleg ógn við einar helstu fiskislóðir Ameríku,“ segir Hilborn.