þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvað étur hnúfubakurinn mikið af loðnu?

3. febrúar 2016 kl. 10:30

Hnúfubakur í nót á Íslandsmiðum.

Um 12 þúsund hnúfubakar voru hér við land í síðustu talningu

Hver hnúfubakur við Ísland gæti étið 600 til 800 kíló af loðnu á dag  meðan hún er aðalfæða hans. Um 12 þúsund hnúfubakar voru við Ísland í síðustu talningu en óvíst er hvað margir þeirra eru hér á vetrum og því ekki hægt að fullyrða hvað hnúfubakar éta mikið af loðnu í heild yfir veturinn.

Þetta kemur fram í viðtali við Gísla Víkingsson, hvalasérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun, á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar er bent á að úthlutaður loðnukvóti sé 173 þúsund tonn. Ef gert sé ráð fyrir að þau 12 þúsund dýr sem voru hér við landið í upphafi vetrar gæði sér öll á loðnunni þá éti þau um 9000 tonn á dag. Það taki því 12 þúsund hnúfubaka 18 til 24 daga að éta allt það magn loðnu sem heimilt er að veiða við landið á yfirstandandi loðnuvertíð.

Sjá nánar á vef Síldarvinnslunnar. 

Uppfært kl 11:40

Athugasemd frá dr. Gísla Víkingssyni

Í samtali mínu við fréttamann vefsíðu Síldarvinnslunnar varð mér á að fara rangt með tölur úr nýafstaðinni hvalatalningu og endurspeglast það í frétt á vefsíðunni. Rétt er að heildarfjöldi stórhvela á svæðinu var metinn um 12.000 dýr, en þar af var fjöldi hnúfubaka metinn um 7.000 dýr og langreyða um 5.000 dýr. Langreyður er heldur stærri en hnúfubakur og hefur ofangreind villa ekki stórvægileg áhrif á inntak fréttarinnar og hugleiðingar fréttamanns um samspil loðnu og stórhvelanna þótt um tvær tegundir þeirra sé að ræða. Ég biðst velvirðingar á þessum mistökum.

Gísli A. Víkingsson