sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvalfangaralíf Íslendinga í Suðurhöfum

Guðsteinn Bjarnason
21. apríl 2019 kl. 05:00

Hvalveiðibærinn Grytviken á Suður-Georgíu, þaðan sem Norðmenn gerðu út umfangsmikla hvalveiði á fyrri hluta 20. aldar. Myndin er, eins og aðrar sem fylgja þessari grein, tekin af Theodor Anderssen á árunum 1926 til 1932. MYND/Hvalfangstarkiver.no

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar héldu nokkrir Íslendingar til hvalveiða með Norðmönnum í Suðurhöfum. Að minnsta kosti tveir þeirra létu þar lífið.

Bjarni Sæmundsson, einn merkasti frumkvöðull fiskifræðinnar hér á landi, var í ágústmánuði árið 1912 á heimleið frá Kaupmannahöfn þegar hann hitti tvo unga Íslendinga sem höfðu verið við hvalveiðar í Suður-Georgíu.

„Það voru tveir bræður úr Reykjavík,“ skrifar Bjarni í Lögréttu þann 20. nóvember. „Þeir höfðu verið við hvalveiðar með Norðmönnum í Suður-Georgíu; það eru eyjar sunnarlega í Atlantshafi, 920 mflur austur af Eldlandi. Var mjög fróðlegt að tala við þá og heyra um hvalfangaralífið þar syðra, þar sem saman voru komnir menn af ýmsum þjóðum.“

Þeir bræður hittu Bjarna á gufuskipinu Botníu, sem reglulega sigldi á þeim árum með farþega og vörur milli Danmerkur og Íslands. Bjarni greinir raunar frá því „Aasbjerg skipstjóri og Jensen meistari“ hafi verið að fara sína 127. og 150. ferð til Íslands.

„Súrt er lífið þar“
En bræðurnir íslensku, sem hann nafngreinir þó ekki, fræða Bjarna um tilveruna í Suður-Georgíu og hvalveiðar þar.

„Súrt er lífið þar, bæði á sjó og landi í loftslagi, sem er hráslagalegra og hrakviðrasamara en víðast annarstaðar, og sitt af hverju reyna þeir, sem leita sjer atvinnu svo langt frá átthögum sínum í eyðieyjum úti í reginhafi,“ hefur Bjarni eftir bræðrunum.

„Meðal ýmissa hluta, sem þeir sögðu mjer, var það einkum merkilegt, að hvalur hafði veiðst þar á annari stöðinni, sem hafði haft íslenskan skutul (ᴐ: frá hvalveiðamönnum hjer) í sjer. Ef hvalurinn hefur í raun og veru fengið skutulinn í sig hjer, þá hefur hann heldur en ekki ljett sjer upp.“

Bjarni ber þessum mönnum afskaplega vel söguna.

“Þessir menn sýndu það, að ekki þurfa menn að verða ruddar eða slarkarar, þó að þeir sjeu með útlendum veiðimannalýð, langt frá allri siðmenningu, og betur væri, að allir ungir menn í Reykjavík væru jafn-prúðir í framgöngu og þessir.“

Siglingin norður tók 37 daga

 Seint í október árið 2012, tæpum mánuði áður en frásögn Bjarna birtist í Lögréttu, er nokkuð ítarlega fjallað í dagblaðinu Vísi, sem þá var aðeins tveggja ára gamalt, um hvalveiðar í Suður-Georgíu og nafngreinir tvo Íslendinga sem þá voru nýlega komnir þaðan.

„Hjer á landi hafa ekki farið miklar sögur af ey þessari, enda er hún all fjarlæg,“ segir í Vísi. „En þessvegna minnist Vísir hennar nú, að tveir Íslendingar hafa dvalið þar um tvö ár, þeir Tómas Guðmundsson hjeðan úr bæ og Ólafur Ólafsson úr Borgarfirði. Þeir eru nýlega komnir þaðan og komu á skrifstofu Vísis og skýrðu honum frá mestu af því, sem hjer er sagt.“

Vísir skýrir síðan frá því að tveir aðrir Íslendingar, bræðurnir Kjartan og Kristján Vigfússynir úr Önundarfirði, væru enn í Suður-Georgíu. Þetta gætu hæglega verið sömu bræðurnir og Bjarni Sæmundsson hitti um borð í Botníu síðla sumars, enda þótt þeir hafi þá verið á heimleið.

Vísir segir að þeir Tómas og Ólafur hafi unnið við skoska hvalveiðistöð á Suður-Georgíu. Þeir voru 37 daga á leiðinni frá eynni norður til Liverpool á Englandi og voru þó á hraðskreiðu gufuskipi.

Fimmtíu krónur á mánuði
„Kaupið er hjer 50 kr. á mánuð og 1 eyrir af hverri útfluttri lýsis tunnu, og er það ofanálag um 500 kr. á ári,“ hefur Vísir eftir þeim Tómasi og Ólafi. Þeir segjast hafa þar bæði frítt húsnæði og fæði. Ferðirnar báðar leiðir fái þeir sömuleiðis fríar og „kaup þann tíma sem ferðir standa yfir, svo menn geta safnað fje með þvf að vinna þar.“

Þeir skýra Vísi frá því að fjórar hvalstöðvar séu á landi í Suður-Georgíu, og „er hin skoska þeirra stærst og vinna þar um 300 manns en við hinar stöðvarnar vinna um 200 manns.“

Þeir segja síðan nánar frá hvalveiðunum þar syðra:

„Hvalveiðar eru hjer afar miklar og er það mest »knörhvalur» sem veiddur er. Nokkuð er veitt af bláhval, en við hann er verra að eiga þar sem hann er mjög fljótur að sökkva. Þá veiðast og finnhvalur og sljett- bakur allmikið og einníg nokknð búrhveli. Úr búrhvelinu fæst hvalauki (»sperm«); það er olía, sem rennur út er skorið er í höfuð hans og storknar hún mjög fljótt og verður hörð eins og tólg, þá fæst og stundum »ambra« úr þörmum þeirra, en um hana segir Gröndal, að hún lykti eins og moskus eða kúamykja,“ segja þeir.

 

Hvalskrokkar grotna í fjörum
„Hvalurinn er bræddur allur, spik og rengi saman, og fæst úr því lýsi No. 1 og 2, en bein og kjet saman, og úr þvi fæst lýsi No. 3 og 4.“

Þegar mest veiðist segja þeir að eingöngu sé hirt spik og rengi, en hinu kastað.

„Liggja svo hvalskrokkarnir þúsundum saman með öllum fjörum og grotna þar niður.“

Ekki var mikið um frítíma meðal hvalveiðimanna á Suður-Georgíu. Unnið var frá klukkan sex að morgni til sex að kvöldi, „og er alltaf unnið kappsamlega.“

Tvisvar yfir daginn taka menn sér klukkustundarhlé til að matast. Dögurður var frá frá hálfníu til hálftíu að morgni og hádegismatur sömuleiðis í klukkustund milli klukkan tólf og eitt.

„Á laugardögum er ekki unnið nema til kl. 4,“ segja þessir ungu Íslendingar. „Annars er unnið alla daga nema sunnudaga, nýársdag, föstudaginn langa og 1. jóladag.“

Dansleikir á laugardögum
Á laugardagskvöldum er venjulega slegið upp dansleik, segja þeir félagar, en „hjer verða auðvitað karlmenn að dansa saman, því á allri eynni eru ekki nema tvær eða þrjár stúlkur, af þeim rúmum þúsund manns, sem þar dvelja. Svo ber við að sjónleikir eru og leiknir, talar þá hver sitt tungumál og er all fjölbreytt. Þá syngja menn gamanvísur, spila og tefla.“

Þá segja þeir að hver maður verði „að hirða sig sjálfur að öllu leyti, bæta og þvo föt sín og rúmföt og verður þettað að gerast í frítímunum.“

Þeir segja að veðráttan á Suður-Georgíu sé „stirð, kuldar og nepjur mjög tíðar og sólskinsdagar fáir, en þrjá vetrar mánuðina — júlí, ágúst og september, leggst öll veiði niður og ganga þá oft langvarandi stórhríðar með frosti, en altaf er unnið í landi, hjerumbil hvernig sem viðrar. Vindar eru tíðir og afar snarpir og gera oft mikinn óskunda, er ekki ótítt að þök fjúki af húsum og jafnvel heil hús fjúka og hafa menn þá stundum beðið stórmeiðsli. Snjókoma er oft stórfeld, getur snjóað samfleytt, sem svarar allt að þrem stikum á jafnsljettu, en alt að 25 stikur þar sem dýpst er. Snjóflóð eru þá ekki heldur sjaldgæf.“

Tilkomulitlar jarðarfarir
Þeir segja jarðarfarir ekki tíðar á Suður-Georgíu, „því heilsufar er gott, svo sem áður er getið.“

Þegar maður deyr er hvalveiðaskip sent eftir landsstjóranum, sem síðan jarðsyngur manninn, „ef svo má að orði kveða, því þar er enginn söngur við hafður og athöfnin öll tilkomulítil. Gröf er tekin rjett hjá stöðinni (3 — 4 mínútna gang frá) og er hún steypt innan, þar er Iíkkistan sett niður, að öllum stöðvarmönnum viðstöddum, Ies landstjórinn stutta bæn yfir gröfinni og síðan er mokað yfir.“

Þeir segja prest venjulega koma einu sinni á ári til Suður-Georgíu. Hann komi þangað um jólaleytið, sem er um mitt sumar á þeim slóðum, og dvelja í um mánaðartíma.

„Það er sjómannaprestur frá Noregi, sem heima á í Buenos Aires og er ferð hans kostuð af norsku stjórninni. Hann messar einu sinni eða tvisvar á hverri stöð og heldur síðan heim.“

Víðförulir ævintýramenn
Á fyrri hluta 20. aldar réði nokkur fjöldi Íslendinga sig til starfa við hvalveiðar á Suðurhveli jarðar, einkum hjá norskum hvalveiðifélögum sem komu sér upp öflugum starfstöðvum á eyjunum í sunnanverðu Atlantshafi, við sunnan- og vestanverða Afríku, í Brasilíu og á Kerguelen-eyjum í Indlandshafi.

Smári Geirsson, sagnfræðingur og fyrrverandi framhaldsskólakennari á Neskaupstað, hefur ritað ítarlega um sögu hvalveiða hér við land í bók sinni Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915, sem Sögufélagið gaf út árið 2015.

Þar er kafli um veiðarnar í suðurhöfum og segir Smári að umsvifin hafi verið mest á eynni Suður-Georgíu í sunnanverðu Atlantshafi og við sunnan- og vestanverða Afríku.

„Hvalstöðvarnar sunnan miðbaugs risu hver af annarri og stór verksmiðjuskip unnu ennig hvalinn um borð,“ skrifar Smári. „Hvalveiðibátarnir frá þessum stöðvum og verksmiðjuskipum veiddu yfirleitt vel og þótti veiðin stundum jafnvel ævintýri líkust.“

Norðmenn voru með sína stærstu hvalveiðistöð í Grytviken á Suður-Georgíu, en sú eyja var þá og er enn undir breskum yfirráðum. Nokkrir tugir manna hafast þar við, fæstir með fasta búsetu en flestir eru þeir vísindamenn eða breskir hermenn. Heldur meira var þar um að vera á hvalveiðiárunum þegar Íslendingar komu þangað til starfa.

„Það var fátítt að íslenskir alþýðumenn réðu sig til starfa í fjarlægum heimsálfum snemma á 20. öld,“ skrifar Smári. „Íslendingarnir sem héldu til hvalveiðistarfa á suðuhveli jarðar voru því umtalaðir og gjarnan litið á þá sem víðförla ævintýramenn.“

Sama rándriftin
Árið 1917 er skrifað um hvalveiðar í Suðurhöfum í dagblaðið Dagsbrún, þann 1. september, en ritstjóri þess var Ólafur Friðriksson, og er tónninn í skrifunum harla gagnrýninn.

„Hvalveiðamennirnir hafa sömu rándriftína á veiðunum á þessum slóðum, og þeir hafa haft hér við land, við Noreg,“ segir þar, „og líður varla á löngu þar til hvölunum hefir fækkað jafnmikið þarna og annarsstaðar þar sem gróðafíkn auðvaldsins hefir óhindruð fengið að svala sér á hvaladrápi.“

Vart fer á milli mála að Ólafur hafi sjálfur haldið þarna á penna. Hann var jafnaðarmaður af róttækustu gerð og varð fyrsti ritstjóri Alþýðublaðsins, sem Alþýðusambandið stofnaði árið 1919.

„Hvalir eru nú sem stendur friðaðir um tíu ára bil hér við land (einnig við Noreg) og ef til vill veitir ekki af, þegar þar að kemur, að sá tími verði framlengdur,“ skrifar Ólafur. Sem jafnaðarmaður var hann lítt hrifinn af einkarekstri, eins og sjá má af skrifunum:

„Hvalveiðar ætti aldrei framar að leyfa að reka hér á landi sem einkafyrirtæki, heldur ætti landið að reka hvalveiðarnar. Það gæti orðið álitleg tekjugrein fyrir landið, og væri um leið bezta tryggingin fyrir því að ekki yrði drepið meira af hvöluunum en að þeim gæti fjölgað hér um bil eins, þrátt fyrir veiðarnar.“

Grafir tveggja Íslendinga
Vitað er um tvo Íslendinga sem létu lífið við hvalveiðar í Suðurhöfum og voru grafnir þar suðurfrá.

Annar hét Jón Jónsson, fæddur á Barðaströnd árið 1855 en kenndur við Rana í Hvammi, Dýrafiriði. Hann dó 2. júní 1926, þá sjötugur orðinn, skammt frá Suður-Georgíu, á eyju sem heitir Signý og var nefnd í höfuðið á eiginkonu norsks skipstjóra. Ekki er ljóst hvort Jón var jarðaður á Signýju eða á Suður-Georgíu.

Hinn hét Olgeir Guðjónsson, fæddur 1885 og lést í júlí árið 1946. Hann var orðinn 61 árs gamall og grafinn í kirkjugarðinum við Grytviken á Suður-Georgíu. Legstein með nafni hans, fæðingar- og dánardegi er að þar. Kirkjugarðurinn þar er lítill, en þar eru þó 65 grafir og er landkönnuðurinn Ernest Henry Shackelton frægastur þeirra sem þar hvíla.

Þeir Jón og Olgeir eru báðir nafngreindir á lista, sem Robert K. Headland tók saman, yfir alla hvalveiðimenn sem jarðsettir voru á Suður-Georgíu, Suður-Orkneyjum og Suður-Hjaltlandseyjum, svo vitað sé. Listi þessi var birtur í árbók Sandefjord-safnanna árin 1981-1986.

Nöfn þeirra beggja er einnig að finna á skrá breskra stjórnvalda um látna einstaklinga á eyjunum, en sú skrá er geymd á Falklandseyjum. Þar er Jón sagður hafa látist af völdum hjartabilunar, en Olgeir sagður hafa drukknað.

Sjá má upplýsingar um kirkjugarðinn á Suður-Georgíu og þá sem þar eru grafnir á vefsíðunni wildisland.gs, en þar eru einnig upplýsingar um kirkjugarða á öðrum eyjum í nágrenninu.

Myndir þær sem fylgja þessari grein eru teknar af Norðmanninum Theodor Anderssen á árunum 1926 til 1932. Andersen var smiður og tók jafnframt ljósmyndir sem hann seldi á póstkortum. Myndirnar eru birtar hér með leyfi frá hvalveiðisafninu í Sandefjord í Noregi, en þær ásamt mörgum fleiri myndum Theodors Anderssen má finna á vefnum Hvalfangstarkiver.no