fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvalkjötið komið til Tromsö

12. júní 2015 kl. 10:01

Hvalur 9 á leið til lands með afla. (Mynd: Viðar Sigurðsson)

Beðið eftir að norðausturleiðin til Asíu opnist.

Um 1.800 tonna farmur af frystu langreyðarkjöti frá Hval hf. er nú kominn til Tromsö í Norður Noregi. Hvalkjötið fór nýverið með flutningaskipinu Winter Bay frá Hafnarfirði. Samkvæmt vefnum marinetraffic.com liggur Winter Bay nú við bryggju skammt frá miðbæ Tromsö. 

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns. Þar segir ennfremur að fyrirhugað sé að flytja hvalkjötið norðausturleiðina svokölluðu til Kyrrahafs og Japan þar sem kaupendurnir bíði. Norðausturleiðin er siglingaleiðin um Íshafið norður af Rússland. Hún er ófær vegna ísa nema seinni hluta sumars og snemma á haustin. Undanfarin ár hafa siglingar smám saman verið að aukast þessa leið eftir að ísinn fór að hopa á Norðurslóðum. Komist Winter Bay norðausturleiðina verður það í fyrsta sinn sem skipsfarmur frá Íslandi fer þessa leið. Hún styttir siglingaleiðina mjög milli Norður Atlantshafs og Kyrrahafs en skip fara þarna ekki um nema undir eftirliti og helst í fylgd ísbrjóta. 

Líklegt má telja að Winter Bay bíði nú í Tromsö eftir því að ísa létti á leiðinni og að Rússar gefi leyfi og grænt ljós á að skipið geti lagt af stað í gegnum Íshafið, segir á vef Skessuhorns.