laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvers vegna ekki að veiða meiri þorsk?

16. apríl 2014 kl. 16:00

Einar Hjörleifsson

Einar Hjörleifsson fiskifræðingur segir á ástandið á miðunum sé í fullu samræmi við mælingar Hafró.

Það er útbreidd skoðun meðal sjómanna að  þorskgengd á miðunum sé ekki í neinu samræmi við mælingar fiskifræðinga og að engin hætta væri á ferðum þótt veiðiheimildir yrðu auknar hressilega. 

„Já, ég kannast auðvitað við þetta sjónarmið. Þegar maður les viðtöl við skipstjóra, til dæmis í Fiskifréttum, verður þeim tíðrætt um að stofnmat Hafrannsóknastofnunar fyrir þorsk hljóti að vera rangt úr því að svona mikið af fiski sé á miðunum,“ segir Einar Hjörleifsson fiskifræðingur í viðtali í páskablaði Fiskifrétta. 

„Þetta er hins vegar misskilningur. Ástandið á miðunum er í fullu samræmi við mælingar okkar. Ástæðan fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á aflabrögðum er sú að þorskstofninn hefur stækkað og veiðihlutfallið minnkað. Viðmiðunarstofninn hefur stækkað úr 600-700 þúsund tonnum árið 2005 í meira en eina milljón tonna nú. Úthlutað aflamark hefur verið í kringum 200 þúsund tonn síðustu árin sem er mun lægra veiðihlutfall en áður. Þess má geta að síðast þegar stofninn var rúm ein milljón tonna skömmu fyrir 1990 var verið að taka úr honum 350 þúsund tonna afla. Veiðihlutfallið hefur meðvitað verið lækkað úr 35-40% niður í 20%. Ef menn eru óánægðir með að fá ekki að veiða meira, þá eru þeir að biðja um að nýtingarstefnunni sé breytt. Það hefur ekkert með mælingar á stofnstærðinni að gera.“

Sjá ítarlegt  viðtali við Einar um þróun þorskstofnsins og nýtingu hans í páskablaði Fiskifrétta.