þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvort er umhverfisvænna grænt eða bleikt?

25. febrúar 2016 kl. 13:19

Norskur lax.

Mun meiri lyfjanotkun og efnanotkun er í ræktun grænmetis en í laxeldi, samkvæmt samantekt á norska vefnum kyst.no

Á norska vefnum kyst.no er gerður samanburður á lyfjanotkun í laxeldi, kjötframleiðslu og grænmetisrækt í Noregi. Blaðamaðurinn sem gerði þennan samanburð segir að ef marka mætti skrif fjölmiðla, sem birta gjarnan neikvæðar fréttir af laxeldi, gæti fólk dregið þá ályktun að mesta lyfjanotkun væri í framleiðslu á laxi en sú væri aldeilis ekki raunin. Grænmetisræktin kæmi langverst út í þessum samanburði.

Árið 2014 voru notuð 13.000 kíló af lúsalyfjum í laxeldi í Noregi. Þegar önnur lyf eru tekin með í reikninginn var heildarnotkunin 15.000 kíló. Til samanburðar má nefna að ársnotkun á lyfjum við kjötframleiðslu var 7.000 kíló. Lyfjanotkun og efnanotkun við framleiðslu á grænmeti, korni og ávöxtum var hins vegar 653 tonn á ári í ræktun í atvinnuskyni og 175 tonn í heimilisræktun, samtals 825 tonn.

Lyfjanotkunin er síðan umreiknuð á hvert kíló af framleiddum afurðum. Niðurstöður úr þeim útreikningum eru að í lax- og urriðaeldi eru notuð 11 milligrömm af lyfjum á kíló af afurð. Í kjöt-, mjólkur- og eggjaframleiðslu eru notuð 8 milligrömm af lyfjum á kíló (hér er mjólkin umreiknuð til magns miðað við innihald hitaeininga) og loks er notað 361 milligramm af lyfjum/efnum á hvert kíló af afurðum í grænmetisrækt.