laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Í anda samningaleiðarinnar

11. febrúar 2011 kl. 11:02

Togveiðar

Enn margir lausir endar í undirbúningsvinnu að breyttri fiskveiðistjórnun

Þrír þingmenn Samfylkingarinnar og þrír þingmenn Vinstri grænna starfa nú með sjávarútvegsráðherra og ráðuneytismönnum að breytingum á fiskveiðistjórnarlögunum. Samkvæmt heimildum Fiskifrétta er unnið í anda samningaleiðarinnar sem meirihluti endurskoðunarnefndarinnar mælti með en ekki fyrningarleiðarinnar sem kvað á um innköllun og endurúthlutun aflaheimilda á 20 árum. Hitt er svo annað mál hvort hagsmunaðilum muni líka útfærslan þegar upp er staðið.

Gert er ráð fyrir í þessari undirbúningsvinnu að stærstum hluta aflaheimildanna verði úthlutað til núverandi kvótahafa samkvæmt samningi til ákveðins árafjölda sem gæti orðið á bilinu 15-20 ár eftir því sem Fiskifréttum er tjáð. Afgangi veiðiheimildanna verði ráðstafað til byggðatengdra verkefna líkt og gert hefur verið hingað til með byggðakvóta, strandveiðum, línuívilnun og fleiru, en ekki endilega með sama fyrirkomulagi og nú er gert. Rætt er um að í þessa byggðapotta fari heldur stærri hluti af heildarkökunni en nú tíðkast en engar tölur hafa verið negldar niður á þessu stigi. Einnig er til skoðunar hvort eitthvað af hugsanlegri viðbót í þennan þátt kunni að verða sett á leigumarkað.

Eitt atriði sem til umræðu er í vinnuhópi sjávarútvegsráðuneytisins er hvernig fara eigi með þann viðbótarkvóta sem til ráðstöfunar verður þegar heildarkvóti í einstökum tegundum er aukinn. Hingað til hafa kvótahafar bæði notið aukningar þegar um hana er að ræða og eins þurft að taka á sig skerðingu þegar svo ber undir. Samkvæmt heimildum Fiskifrétta hefur sú hugmynd verið rædd að tiltekið hámark verði sett á hinn samningsbundna hluta úthlutunarinnar, þ.e. ef ráðlagðar veiðiheimildir í einstökum tegundum fari yfir tiltekið hámark verði heimildum umfram hámarkið ráðstafað að öllu eða hluta til með öðrum hætti, t.d. á leigumarkað eða til byggðatengdra aðgerða.

Sjá nánar í Fiskifréttum.