sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Í fylgd grásleppunnar frá fyrstu tíð

Guðsteinn Bjarnason
2. júní 2018 kl. 07:00

Grásleppa með merki frá BioPol á Skagaströnd. MYND/ÞB

Sjávarlíftæknisetrið Biopol á Skagaströnd hefur starfað í rúman áratug. Hjá fyrirtækinu starfa átta manns, flest allir háskólamenntaðir og þar af þrír með doktorspróf.

Halldór Gunnar Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol, er sjávarútvegsfræðingur með reynslu úr fisk- og rækjuvinnslu bæði frá Noregi og hér heima. BioPol var nýstofnað sprotafyrirtæki þegar honum bauðst að taka við því haustið 2007.

„Á þessum tíma var verið að skera niður þorskkvótann um 30 prósent og fiskvinnsla að gefa eftir hérna. Þá þurfti að finna eitthvað annað eins og oft er sagt, og þetta er eitthvað annað,“ segir Halldór. „Nema hvað ég settist niður við skrifborð og átti að fara að stunda rannsóknir á lífríki sjávar. Þá fór ég svona að grufla og skoða hvað hefði verið gert hérna í okkar nærumhverfi og staldraði fljótt við hrognkelsið.“

Hann sá strax fyrir sér að hægt yrði að nýta hrognkelsið betur.

„Á þessum tíma var öllum fiskinum hent, hrognin bara tekin og hinu öllu hent.“

Fyrstu hugmyndirnar gengu út á finna leiðir til að nýta hveljuna betur, einkum til að reyna að framleiða kollagen úr henni.

„En um leið og maður fór að kynna sér betur fiskveiðistjórnun á hrognkelsum og líffræðilegan bakgrunn sá maður hvað lítið var vitað um þessa tegund, . þá sá maður strax að það var allt á mjög veikum grunni. Ef við hefðum fundið hágæðakollagen í hveljunni þá kæmi þrýstingur á aukna veiði, en við sáum ekki að þær væri neinn grundvöllur til að meta hvort það mætti veiða meira eða minna.“

Þannig að Halldór sneri sér að því að rannsaka hrognkelsið betur, fékk sjómenn í lið með sér og hóf að setja merki á grásleppu sem veiddist á Húnaflóa og Skagafirði.

„Það voru ekki liðnir nema nokkrir dagar eftir að ég byrjaði fyrst þegar fólk fer að hringja alls staðar að af landinu. Þá var ég kominn í samband við grásleppusjómenn út um allt land og það hjálpaði okkur mjög mikið í byrjun. Grásleppan hefur í raun og veru fylgt okkur alla tíð síðan.“

Fjölbreytt verkefni
Smám saman þróaðist síðan starfsemin hjá Biopol út í aðrar rannsóknir á lífríki hafsins í Húnaflóa. Verkefnin eru fjölþætt.

„Okkur er ætlað að vakta ástand Húnaflóa, og síðan eigum við að stunda nýsköpun og reyna að koma auga á ný tækifæri í tengslum við nýtingu á sjávarfangi.“

BioPol hefur meðal annars unnið verkefni fyrir Matís. Hjá fyrirtækinu er hýstur sérfræðingur frá Hafró sem sér um ráðgjöf með hrognkelsin. BioPol er í samstarfi við Náttúrustofu Norðurlands vestra, og þar er hýstur sérfræðingur frá Háskólanum á Akureyri.

„Þetta er átta manna hópur, allir nema einn háskólamenntaðirháskólamenntaður, þar af þrír með doktorspróf, þannig að þetta er svolítið öðru vísi.“

„Við störtuðum fleiri verkefnum í tengslum við ræktun á þangi og þörungum og öllu mögulegu. Við höfum gert úttekt á beitukóngi hérna í Húnaflóa, ígulkerjum og hörpuskel.“

Nýjasta verkefnið er svo að fylgjast með plastmengun í hafinu við Skagaströnd, eins og Fiskifréttir greindu frá nýverið.

Matvælavinnsla
Síðasta haust var svo lokið við uppsetningu á vottuðu vinnslurými í húsakynnum BioPol á Skagaströnd.

„Við köllum það vörusmiðju og þar getur fólk komið og leigt sér aðstöðu, komist í tækjabúnað til að vinna matvæli, hvort sem er fiskur eða kjöt, eða aðrar vörur úr lífrænum efnum. Hér er þá búið að leggja í þessa grunnfjárfestingu sem þarf að vera til staðar.“

Nú þegar hafa nokkrir framleiðendur nýtt sér aðstöðuna, en Halldór Gunnar segir að næsta haust fari allt á fullt.

„Bændur hafa verið á námskeiðum í Skagafirði til að mennta sig í því hvernig á að haga sér í kringum framleiðslu beint frá býli. Þeir koma svo í haust til okkar. Það er í raun og veru hugsunin að það þurfi ekki allir að leggja ut i þessa fjárfestingu.“

Keypti sér trillu
„Sum verkefnin hérna er mjög einfalt að leysa hér af því maður hefur svo gott aðgengi að sjómönnum og bátum og fær jafnvel hugmyndir frá þeim,“ segir Halldór Gunnar.

Hann segir að smábátaútgerð hafi verið að eflast nokkuð á Skagaströnd undanfarin ár, menn á þrítugs- og fertugsaldri hafi verið að kaupa sér trillu.

„Menn eiga ekki mikinn kvóta, en eru að reyna að koma undir sig fótunum með grásleppu og strandveiðum, byggðakvótanum líka, svona í von um eitthvað betri tíð. Á maður ekki að kaupa þegar botninum er náð?“

Sjálfur keypti hann sér að minnsta kosti trillu síðasta haust og ætlar að vera eitthvað á strandveiðum í sumar, eftir því sem annir hjá BioPol leyfa.