

Skipting kvótaréttinda í Noreg hefur fyrst og fremst verið í höndum atvinnugreinarinnar sjálfrar. Samvinna hennar og stjórnvalda byggir á meira trausti en tíðkast á Íslandi, segir Helgi Áss Grétarsson sérfræðingur í fiskveiðistjórnunarkerfum í samtali við Fiskifréttir.
Helgi Áss segir að á vettvangi Norges Fiskarlag, sem eru heildarsamtök í norskum sjávarútvegi, m.a. skipuð fulltrúum útgerða, sjómanna, smábátaeigenda og fiskvinnslu, hafi ítrekað verið fjallað um kvótaskiptingu einstakra útgerðarflokka. Þótt ályktanirnar hafi ekki lagagildi hafi stjórnvöld farið eftir þeim í framkvæmd.
Í viðtalinu segir Helgi Áss einnig: ,, ,,Ef við göngum út frá því að íslenska kvótakerfið sé hagkvæmasta fyrirkomulagið fyrir þjóðina í heild, þá hlýtur sú spurning að vera áleitin hvort ekki sé ódýrara og hagkvæmara fyrir alla að taka peninga af sjávarútvegsfyrirtækjunum með sérstökum skatti, ef einhver ofurhagnaður myndast í greininni, í stað þess að skattleggja fyrirtækin með því að skerða kvóta þeirra og færa hann til annarra og skapa um leið mikla óvissu um framtíðina."
Sjá nánar viðtal við Helga Áss í nýjustu Fiskifréttum.