laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Í samkeppni við íslenskar vinnslur

Guðjón Guðmundsson
12. desember 2019 kl. 13:00

Icewater hefur lengi keypt tæknilausnir frá Íslandi. Mynd/Icewater Seafood

Icewater Seafood í Kanada með íslenskan tæknibúnað

Kanadíska sjávarútvegsfyrirtækið Icewater Seafoods, sem er eitt stærsta fyrirtækið þar í landi í vinnslu á þorski, er á lokasprettinum með þriggja ára fjárfestingarverkefni upp á 7,5 milljónir US dollara sem miðar að því að bæta samkeppnisstöðuna gagnvart íslenskum og norskum vinnslum inn á Evrópumarkað. Fjárfestingin felst meðal annars í vatnskurðarvélum frá Marel og nýju frystikerfi frá Kælismiðjunni Frost.

Fyrr á þessu ári skrifaði fyrirtækið undir samning við Marel um tækjabúnað upp á 150 milljónir ÍSK.  Alberto Wareham, framkvæmdastjóri Icewater Seafoods, segir að verksmiðjunni í Arnold‘s Cove verði lokað í þrjá til fjóra mánuði í vetur meðan uppsetning fer fram á hátæknivæddu frystikerfi Kælismiðjunnar Frosts.

„Með kerfinu verður hægt að frysta afurðirnar hraðar og með skilvirkari hætti en nú er gert. Við miðum við að búnaðurinn verði kominn í fulla notkun í júní á næsta ári,“ segir Wareham.

Þrátt fyrir mikinn niðurskurð í þorskkvóta Kanadamanna hefur stefna Icewater Seafoods verið sú að byggja upp hátæknivætt fiskiðjuver með það að leiðarljósi að fullnýta hráefnið. Wareham segir að 99,8% af hráefninu sem verksmiðjan kaupi endi í neytendapakkningum. Hann segir fyrirtækið í einstæðri stöðu með kaup á ferskum fisk af dagróðrarbátum sem gera út frá Nýfundnalandi en auk þess kemur um 20% af hráefninu af frystitogurum.

80% til Evrópu

80% afurðanna er selt til Evrópu, þar af til tveggja stærstu markaðanna fyrir hágæða frystan þorsk, þ.e. Bretlands og Frakklands.

Fiskifréttir sögðu frá því fyrir skemmstu að umrædd verksmiðja Icewater var byggð í Arnold‘s Cove í Nýfundnalandi árið 1979, þá undir merkjum fyrirtækisins High Liner Foods. Verksmiðjan var ein fárra sem lifðu það af þegar stjórnvöld sáu þá einu leið færa að banna alla veiði á þorski úr hinum áður risavaxna þorskstofni sem sögulega hafði verið veitt úr innan lögsögu Nýfundnalands. Eins og þekkt er var sá stofn ofveiddur svo harkalega að árið 1992 var hann gott sem horfinn með öllu og allsherjarbann við þorskveiðum sett á við austurströnd Kanada.

Matís hélt 2017 vinnufund á Nýfundnalandi, þar sem til umfjöllunar var hvernig þeir geti best undirbúið sig fyrir auknar þorskveiðar. Þar hvöttu sérfræðingar frá Matís heimamenn til að líta ekki á aðrar þorskveiðiþjóðir sem samkeppnisaðila, það sé hagur allra að þeir nái að framleiða þorskafurðir í hæstu gæðum og að það muni í raun styrkja og stækka markaðinn fyrir afurðir allra framleiðenda.